140. löggjafarþing — 74. fundur,  15. mars 2012.

útgáfa virkjanaleyfa.

491. mál
[17:29]
Horfa

Flm. (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Aðeins áfram um stærð þessara virkjana og eignarrétt bænda. Í því sambandi er verið að tala um að valkostirnir séu fyrir hendi og rétturinn sé ævinlega bóndans. Þannig er það til dæmis í Noregi, það er bóndinn sem á réttinn eða landeigandinn. En ef virkjunin er stærri en lögin heimila þurfa opinberir aðilar að koma að með viðkomandi landeiganda enda er verkefnið þá væntanlega orðið talsvert umfangsmikið, bæði í verði og að stærð, og ekki óeðlilegt að það sé skoðað af fleiri aðilum.

Ég held að ég hafi orðað það svo að ég væri efasemdarmaður um sæstreng, og ég er það. Ég tók það einmitt sem rök að við höfum á liðnum áratugum haft verulegan arð af þessu lága verði, allir landsmenn. Það þarf að tryggja að þetta verði skoðað vel þegar við förum í þessa vegferð. Það eru ákveðnir kostir sem þingmaðurinn nefndi um betri nýtingu. Ég er ekki viss um að hægt sé að fullyrða að þjóðin græði öll ef orkuverðið hækkar. Hún gerir það með einhverjum hætti en við þurfum líka að tryggja samkeppnisstöðu innan lands. Við þurfum þá að tryggja jafnt raforkuverð innan lands. Við þurfum að tryggja að á þeim svæðum á Íslandi þar sem raforkan er jafnvel framleidd geti menn verið með orkusækna starfsemi ef þeir vilja en við séum ekki búin að búa til regluverk í sambandi við kostnað hjá Rarik og öðrum flutningsfyrirtækjum sem geri það ókleift að byggja upp atvinnu nema á einstaka stöðum á landinu. Það eru sem sagt margir þættir sem við þurfum að skoða í þessu tilliti.

Með þessari þingsályktunartillögu erum við að leggja til að allir kostir þess að leggja sæstreng, sem eru vissulega þó nokkrir, verði skoðaðir en gallarnir teknir með. Við viljum að þetta verði gert á vegum Alþingis, ríkisstjórnarinnar, en ekki að eitt fyrirtæki, sem hefur verulegan hag af hækkandi orkuverði, þó það sé í eigu þjóðarinnar, Landsvirkjun, sitji eitt að því borði. Við viljum fá stærri hóp að málinu.