140. löggjafarþing — 74. fundur,  15. mars 2012.

útgáfa virkjanaleyfa.

491. mál
[17:31]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég má til með að blanda mér í þessa umræðu vegna þess hversu hún áhugaverð er en ég vil ekki tefja málið.

Fyrst varðandi sæstrenginn og afleiðingar hans. Það er ekki gott ef við ætlum að niðurgreiða og halda niðri orkuverði á Íslandi með einangrun þannig að Íslendingar en um leið öll álverin og allir útlendingarnir sem kaupa orku hér borgi minna fyrir raforkuna. Ég er hlynntur því að hækka verðið jafnvel þó að það komi niður á innlendum notendum, enda er mjög óeðlilegt að niðurgreiða orku til heimilanna. Það er miklu betra að menn njóti þess í miklu meiri arði hjá Landsvirkjun og geti þá létt skattbyrðinni af þjóðinni í stórum stíl.

Mig langaði til að ræða eignarhluta Landsvirkjunar sem menn eru að reyna að koma þarna inn. Ég hélt ræðu fyrir ekki svo mörgum dögum þar sem ég ræddi um allt aðra leið til að „selja“ Landsvirkjun en eiga hana samt. Það fólst í því að nýta sér að í augum einstaklinga, fjárfesta og fyrirtækja eru 40 ár óskaplega langur tími en í augum þjóðar eru 40 ár stuttur tími. Þá er spurning um að stofna, eins og ég nefndi þá — ég ætla að fara í gegnum það aftur því að það er greinilegt að ekki hlustuðu allir á það þá — að stofnuð yrði Kárahnjúkavirkjun hf. sem fengi afl í Jöklu að leigu til 40 ára. Hún fengi samninga við álverið, tæki þá yfir og tæki jafnframt allar skuldir vegna þeirrar virkjunar. Hún fengi jarðgöngin, stöðvarhúsið, öll tæki og tól þar og líka stífluna á leigu til 40 ára og yrði að skila því í sama ásigkomulagi eftir 40 ár. Svo yrði Kárahnjúkavirkjun hf. seld.

Hvað þýðir það? Það þýðir að kaupendurnir fá í raun þessa orku til ráðstöfunar í 40 ár. Við flytjum tekjustrauminn til dagsins í dag með því að selja virkjunina og ríkið losnar við ábyrgð á skuldunum. Eins og ég gat um áðan er falin áhætta í þessu. Það gæti verið að Landsvirkjun sæti uppi með allar virkjanirnar ónýttar ef til dæmis öll álfyrirtæki í heiminum færu á hausinn ef það tækist að framleiða ál með öðrum hætti en rafgreiningu, sem væri dálítið undarlegt. Þá sætum við uppi með gífurlegar skuldbindingar fyrir ríkissjóð og engar tekjur á móti, við sætum uppi með fullt af orkuverum sem væru ónýtt. Ég er ekki að segja að það gerist, ég bendi bara á áhættuna. Með því að selja Kárahnjúkavirkjun hf. til fjárfesta er ég búinn að flytja tekjustofninn til dagsins í dag, lækka skuldir ríkissjóðs, bæta lánshæfismatið o.s.frv. og fá hugsanlega eigið fé Landsvirkjunar ef Þjórsárvirkjanir hf. og aðrar virkjanir verða stofnaðar, restin af Landsvirkjun, þá erum við búin að selja Landsvirkjun til 40 ára, ná tekjustraumi inn, ná eigin fénu hingað og skuldirnar verða engar. Þær taka kaupendur þessara fyrirtækja yfir.

Eftir 40 ár stofnum við aftur Kárahnjúkavirkjun 2 sem mundi leigja aflið úr Jöklu til 40 ára frá þeim tímapunkti og mundi mega gera samninga við álver eða einhvern annan kaupanda. Hún mundi sem sagt taka yfir allt batteríið skuldlaust því að þá er það orðið skuldlaust. Þá gætum við selt það fyrir heilmikla fjármuni. Svo mundum við selja Kárahnjúkavirkjun á 40 ára fresti um ókomna framtíð og alltaf fengjum við allt eigið féð til okkar. Ég bendi á þetta sem möguleika þannig að við getum greitt upp stóran hluta af skuldum þjóðarinnar í dag og lagað gjaldeyrisstöðuna. Ég útiloka ekki erlenda kaupendur og tæki þeim fagnandi því að þeir mundu kaupa Landsvirkjun til 40 ára í pörtum. Höfuðstöðvar Kárahnjúkavirkjunar yrðu að sjálfsögðu á Egilsstöðum, ég reikna fastlega með því, höfuðstöðvar Þjórsárvirkjana hf. á Hvolsvelli eða Hellu og restin yrði þá á Selfossi. Þannig gætum við búið til módel þar sem við seljum Landsvirkjun til 40 ára og svo seljum við hana bara aftur eftir 40 ár. Við fengjum vonandi inn erlent fé því ég reikna með að það væru erlendir aðilar sem mundu kaupa Kárahnjúkavirkjun.

Ég sé til dæmis fyrir mér að eigendur álveranna hefðu áhuga á því að kaupa eða jafnvel samkeppnisaðilar þeirra til að geta selt samkeppnisaðilum og vitað meira um þá. Ég sé þarna heilmikla möguleika og ég vildi gjarnan að þessari þingsályktunartillögu yrði breytt í þá veru að þessi möguleiki væri líka inni í myndinni. (Gripið fram í: Nei.) Þá gætum við fyrst sýnt Íslendingum hvað þeir eru ríkir í raun. Þeir 200 milljarðar, sem eru eigið fé Landsvirkjunar, mundu allt í einu koma í kassann og allar skuldir Landsvirkjunar sem ríkissjóður ber ábyrgð á, hyrfu því að fyrirtækin tækju áhættuna og afborganirnar. Það yrði væntanlega að hafa einhverja ríkisábyrgð til að byrja með en reynslan sýnir að fyrirtækin hafa yfirleitt greitt niður ríkisábyrgðina þegar þau þurfa að fara að borga ríkisábyrgðargjald.

Ég vildi gjarnan að sú nefnd sem fær málið til skoðunar skoði þann flöt sem ég nefni hér, að selja Landsvirkjun en eiga hana samt. (Gripið fram í: Nei.)