140. löggjafarþing — 75. fundur,  20. mars 2012.

ný reglugerð um sorpbrennslur.

[13:34]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Fréttir af nýrri reglugerð umhverfisráðherra um sorpbrennslur hafa vakið hörð viðbrögð. Þar er lagt til að sérákvæði um starfandi sorpbrennslustöðvar verði felld úr gildi. Það hefur meðal annars í för með sér að sorpbrennslur bæði í Vestmannaeyjum og á Kirkjubæjarklaustri, þar sem stöðin er 10 ára gömul, þurfi að hætta starfsemi frá og með næstu áramótum og sveitarfélögin þurfa að leita annarra lausna við sorplosun. En þótt nýjar reglugerðir komi frá umhverfisráðuneytinu þarf eftir sem áður að losna við sorpið. Þá er spurningin: Er það virkilega betra fyrir umhverfið að sorp frá Vestmannaeyjum sé flutt með olíumengandi skipi til Svíþjóðar?

Þess má líka geta að báðar þessar stöðvar nýta orkuna sem myndast við sorpeyðinguna til framleiðslu á rafmagni til húshitunar og þarf þá að finna aðrar lausnir við þá starfsemi. En skoðum aðeins málið.

Eru einhverjar sannanir fyrir því að þessi starfsemi hafi haft skaðleg áhrif á umhverfið? Ef við tökum Vestmannaeyjar sem dæmi þá er eldgos mesti díoxínvaldurinn og hæsta gildi díoxíns sem mælst hefur í jarðvegi í Vestmannaeyjum mældist í 38 ára gömlu hrauni. Það er spurning hvort hægt sé að sýna fram á að sú mengun sé frá sorporkustöðinni sem hefur verið þarna frá 1991. Ég leyfi mér að efast um það.

Ef við skoðum gögn Umhverfisstofnunar sjálfrar má sjá greinargerð frá 6. júlí 2011, Niðurstöður úr mælingum á díoxínum í jarðvegi. Þar segir, með leyfi forseta:

„Á heildina litið er niðurstaða mælinganna sú að díoxín í jarðvegi er í öllum tilvikum undir þeim mörkum sem kalla á takmarkanir á nýtingu, hreinsun jarðvegs eða geta skapað hættu fyrir almenning og lífríki. Almenningur þarf ekki að hafa áhyggjur af því að rækta í jarðvegi, tína ber eða nýta aðrar náttúruafurðir. Búið er að loka sorpbrennslunni Funa og mun því ekki verða meiri uppsöfnun á díoxínum í jarðvegi af hennar völdum.“

Því er við að bæta að Umhverfisstofnun reiknar reglulega út heildarlosun ýmissa mengandi efna og þá kemur í ljós að áramótabrennurnar á gamlárskvöld losa 46% af öllu því díoxíni sem losnar út í andrúmsloftið hér, en allur iðnaður á Íslandi, hvort sem það er atvinnulífið, sorpbrennsla eða samgöngur, á 53% af því díoxíni sem losað er út í andrúmsloftið hér á landi á ári.

Spurningin er því þessi: Hvaða vandamál ætlar hæstv. umhverfisráðherra að leysa með þessari reglugerð og hvaða vandamál skapar hún með henni?