140. löggjafarþing — 75. fundur,  20. mars 2012.

ný reglugerð um sorpbrennslur.

[13:39]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég gat ekki betur heyrt á hæstv. umhverfisráðherra en að ófullkomnar sorpbrennslustöðvar heyrðu sögunni til frá og með næstu áramótum en að gömlu góðu öskuhaugarnir yrðu teknir upp aftur. Mér heyrðist á henni að hér ætti að fara að urða allt upp á gamla mátann í ruslahaugum. Það er svo mikil kjánanálgun, afsakaðu frú forseti, að ræða um að leysa eitthvert vandamál með því að gera heildstæða áætlun um hitt og þetta án þess að ræða við fólkið á svæðinu og spyrja: Hvernig munum við losa sorp í framhaldinu? Hvað getum við gert til að minnka mengun? En það er nefnilega nákvæmlega það sem verið er að gera á þessum stöðum.

Síðan þær mælingar sem ég vitnaði til áðan voru gerðar í Vestmannaeyjum hefur brennsludögum í sorpeyðingarstöðinni þar fækkað úr 26 í fjóra til fimm daga á mánuði með tilheyrandi minnkun mengunar. Nú er farið að flokka sorp og allt er það gott og gilt. Öll viljum við ganga vel um, öll viljum við gera hlutina betur, (Forseti hringir.) en það þýðir ekki að koma fram með kostnaðarsamar reglugerðir án þess að láta fylgja með hvernig sveitarfélögin eiga að bregðast við þeim kostnaði. Ætlar hæstv. umhverfisráðherra (Forseti hringir.) að veita aukafjármagn til þessara sveitarfélaga til að þau geti brugðist við þessum áætlunum?