140. löggjafarþing — 75. fundur,  20. mars 2012.

staða Íslands innan Schengen.

[13:44]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Þegar Íslendingar gerðust aðilar að Schengen á sínum tíma andæfðu ýmsir í þessum sal því og þá ekki síst þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Við töldum það kostnaðarsamt og íþyngjandi á marga lund og ég er enn þeirrar skoðunar að svo sé. En niðurstaðan varð sú að við gengum í Schengen og undirgengumst þar ýmsar kvaðir. Við réðumst í margvíslegar skipulagsbreytingar og því er ekki að leyna að við höfum gagn af því samstarfi á ýmsan hátt, þar vísa ég meðal annars í samstarf lögreglunnar á Schengen-svæðinu. Þar eru kostir og þar eru gallar. Þar er ýmislegt sem er mjög íþyngjandi, kostnaðarsamt, og ég tek undir ýmsar ábendingar sem fram koma hjá hv. þingmanni en ég er ekki reiðubúinn að gefa neinar yfirlýsingar að óathuguðu máli. Það er rétt og æskilegt að þingið sé með þessi mál til skoðunar. Við höfum vissulega verið með það mál til skoðunar í innanríkisráðuneytinu og mér finnst eðlilegt að þingið taki um það upplýsta umræðu.

Stóra málið er náttúrlega ekki Schengen þegar kemur að frjálsu flæði mannfólksins. Það er fyrst og fremst EES-samningurinn sem opnar á frjálst flæði vinnuafls, sem var einn af þáttum fjórfrelsisins eins og við þekkjum. En ég vil taka undir með hv. þingmanni, það er mikilvægt að halda þessari umræðu á lofti og að hún fari fram (Forseti hringir.) í sölum Alþingis. Við erum að skoða þetta mál í innanríkisráðuneytinu og ég er meira en tilbúinn að taka þátt í upplýstri umræðu á Alþingi um það.