140. löggjafarþing — 75. fundur,  20. mars 2012.

staða Íslands innan Schengen.

[13:48]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður kvartaði yfir því að hafa ekki fengið frá mér svar. Það er alveg rétt, þetta voru fyrst og fremst vangaveltur á sama hátt og það voru fyrst og fremst vangaveltur sem fram komu hjá þingmanninum.

Eitt er alveg víst, við tökum ekki ákvarðanir í fljótræði eða að óathuguðu máli. Auðvitað þurfum við að eiga góða umræðu um þetta mál í þinginu og það höfum við vissulega gert. Hv. þm. Árni Johnsen flutti þingmál á síðasta ári þar sem hann lagði til að við færum í allsherjarúttekt á þessu samstarfi. Ég hef látið gera skýrslu þar sem farið er í saumana á þessum málum, við höfum efnt til ráðstefnu um málið sem öllum þingmönnum var meðal annars boðið til og sumir hér í salnum sóttu þann fund. Ég held að hv. fyrirspyrjandi hafi verið þar í hópi.

Ég ítreka að þetta er mikilvæg umræða en við hröpum ekki að neinum (Forseti hringir.) ákvörðunum í fljótræði. (Gripið fram í.)