140. löggjafarþing — 75. fundur,  20. mars 2012.

eldsneytisverð og ferðastyrkir.

[13:54]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U):

Virðulegi forseti. Ég hefði ekkert á móti því að ræða norræna velferðarkerfið við hæstv. velferðarráðherra enda hef ég meðal annars skrifað bók um einkenni þessa velferðarkerfis og annarra velferðarkerfa sem íslenska velferðarkerfið líkist meira. Til þess gefst ekki tími núna.

Það sem ég vil jafnframt spyrja hæstv. ráðherra út í er hvort hann geti stutt frumvarp sem ég er að láta vinna að sem á að fela í sér sérstakan skattafslátt fyrir þá sem þurfa að ferðast um langan veg til að sækja vinnu, líkt og gert er í Danmörku og Noregi. Í Danmörku fá þeir sem keyra umfram 24 kílómetra (Gripið fram í.) skattafslátt sem nemur um 45 íslenskum krónum á kílómetrann. Það væri hægt að innleiða slíkan skattafslátt hér á landi fyrir það fólk sem einmitt býr utan þéttbýlissvæða á stöðum eins og (Forseti hringir.) á Reykjanesi og Selfosssvæðinu þar sem lítið er um vinnu og atvinnuleysi er mikið. Slíkur skattafsláttur mundi gera það að verkum að það borgaði sig fyrir fólk á þessu svæði að sækja vinnu til höfuðborgarsvæðisins (Forseti hringir.) í stað þess að vera á atvinnuleysisbótum.