140. löggjafarþing — 75. fundur,  20. mars 2012.

barátta lögreglu við glæpagengi.

[14:09]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Frú forseti. Það er ánægjulegt að heyra að hæstv. ráðherra er vakandi í þessu máli. Ég tel að svo verði að vera. Við sjáum að þróunin hér á landi er að verða svipuð og annars staðar á Norðurlöndum. Ég vil hins vegar spyrja hæstv. ráðherra tveggja spurninga, og þá fyrst hvort hann líti á þessa starfsemi sem löglega. Er sú starfsemi í sjálfu sér lögleg þegar samtök sem eru þekkt fyrir skipulagða glæpastarfsemi úti í heimi setja sig niður hér á landi með aðsetur og í sumum tilvikum svokölluð félagsheimili?

Í annan stað: Hefur hæstv. ráðherra átt orðastað við Landssamband lögreglumanna og formann þess, Snorra Magnússon, og fleiri aðila þar í stjórn til að heyra sjónarmið þeirra? Það eru jú þeir, fagmennirnir sjálfir, sem vilja ganga lengra. Hefur ráðherra átt orðastað við þá ágætu herramenn (Forseti hringir.) sem gæta laga hér á landi?