140. löggjafarþing — 75. fundur,  20. mars 2012.

Vaðlaheiðargöng.

[14:17]
Horfa

fjármálaráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Áform um gerð Vaðlaheiðarganga hafa fengið ítarlega umræðu innan þings sem utan og félag í eigu sveitarfélaganna fyrir norðan og ríkisins í gegnum Vegagerðina stendur að baki verkefninu sem gert er ráð fyrir að standi undir sér með veggjöldum eins og fram kom áðan í máli hv. málshefjanda.

Göngin sjálf munu skipta miklu máli fyrir svæðið fyrir norðan, bæði vegna öruggari samgangna yfir vetrartímann og styttingar akstursleiða en einnig sem tenging á milli atvinnusvæða. Það atriði er enn mikilvægara nú vegna uppbyggingar og markaðssetningar iðnaðarsvæðisins á Bakka. Samgöngubót sem Vaðlaheiðargöng verða mun nýtast vel við þá uppbyggingu og greiða leið á milli atvinnusvæða á Norðurlandi.

Kostnaðaráætlanir vegna gangagerðarinnar og spár um umferð o.fl. hafa verið rýndar af fleiri en einum greiningaraðila. Mismunandi forsendur eru að einhverju leyti gefnar fyrir hverri greiningu fyrir sig og munar þar mest um spár um umferð um göngin. Verður hún eins og gert er ráð fyrir í áætlun Vegagerðarinnar eða dregur hugsanlega úr henni? spyrja menn. Alls staðar þar sem göng eru tekin í notkun eykst umferð til muna og því er spurt: Þarf að gera ráð fyrir því að þróunin verði með öðrum hætti hvað þessi göng varðar? Framkvæmdum eins og Vaðlaheiðargöngum fylgir alltaf einhver áhætta en samkvæmt niðurstöðu IFS Greiningar mun fjárhagslega áhættan minnka um leið og eigið fé félagsins er aukið. Frumvarpið um veitingu lánsins til verkefna félagsins er tilbúið í ráðuneytinu en eins og gert er ráð fyrir óskaði fjármálaráðuneytið eftir umsögn Ríkisábyrgðasjóðs um frumvarpið og er viðbragða hans að vænta á allra næstu dögum. Frumvarpið fer fyrir ríkisstjórn þegar umsögn sjóðsins liggur fyrir og nú fer hver að verða síðastur að leggja fram frumvarp fyrir yfirstandandi þing þannig að ekki eru margir dagar til stefnu og því þarf ekki lengi að bíða eftir niðurstöðunni.

Gildandi tilboð verktakans í verkið var fyrir skömmu lengt um þrjá mánuði. Vaðlaheiðargöng eru á samgönguáætlun en ekki fremst í röðinni eins og kunnugt er. Ástæðan fyrir því að mögulegt er að hefja framkvæmdina nú og skapa um leið atvinnu við samgöngumannvirkið er sú að hún er fjármögnuð með veggjöldum en ekki með framlagi úr ríkissjóði. Í því liggur munurinn. Með þessu fyrirkomulagi framkvæmdarinnar er eingöngu gert ráð fyrir því að ríkið láni til verkefnisins á framkvæmdatíma og á fyrstu þremur rekstrarárum ganganna. Að þeim tíma liðnum verður lánið endurfjármagnað. Þess vegna ætti þessi framkvæmd ekki að hafa áhrif á skuldastöðu ríkissjóðs og þar af leiðandi ekki á getu hans til að sinna öðrum lögbundnum verkefnum sínum á sviði samgangna. Fyrirkomulagið og fjármögnunin gengur út á að raska ekki tímasetningu annarra samgönguverkefna.

Bygging samgöngumannvirkja er lögbundið hlutverk hins opinbera. Því má segja að með þessu fyrirkomulagi sé gert ráð fyrir að ríkissjóður fái þessa framkvæmd á 100% afslætti ef forsendur standast. Ef eitthvað fellur á ríkissjóð að lokum hefur það eitt gerst að afslátturinn hefur minnkað úr 100% í eitthvað lægra hlutfall. Áhættan er fyrir hendi, rétt eins og áhætta ríkisins yrði ef farið yrði í framkvæmdina samkvæmt samgönguáætlun. Spurningin er bara hvort hún sé ásættanleg miðað við að miklar líkur séu á að veggjöldin standi undir framkvæmdinni.