140. löggjafarþing — 75. fundur,  20. mars 2012.

Vaðlaheiðargöng.

[14:24]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg):

Forseti. Vorið 2008 var samþykkt að fara með Vaðlaheiðargöng í einkaframkvæmd og var þá gert ráð fyrir því að ríkið fjármagnaði framkvæmdina að hálfu leyti. Þetta kom skýrt fram í umræðum um málið. Í almennri umræðu var málið mjög umdeilt og þeim sjónarmiðum meðal annars teflt fram að Vaðlaheiðargöng ættu að fara í almenna forgangsröðun samgönguáætlunar. Á árinu sem leið var því lýst yfir að ekki yrði ráðist í framkvæmdina nema hún stæði að öllu leyti undir sér með notendagjöldum. Þessar forsendur eiga að vera öllum ljósar.

Þegar nú er spurt hvort Vaðlaheiðargöng muni hafa áhrif á aðrar framkvæmdir verður að hugsa svarið með hliðsjón af framtíðinni. Ef við tökum alvarlega skýrslur og ábendingar er augljóst að kostnaðurinn verður að hluta til fjármagnaður af ríkissjóði. Þar erum við að tala um stórar fjárhæðir sem allir sækjast eftir. Ef við gefum okkur að það verði úr sama vasa og aðrar stórframkvæmdir er gefið mál að þessi framkvæmd mun bitna á öðrum samgönguúrbótum.

Samgönguáætlun byggir á áformum langt fram í tímann. Ef taka á framkvæmdafé til Vaðlaheiðarganga með lántöku ríkissjóðs þannig að það raski samgönguframkvæmdum síðar verður að ræða þessa framkvæmd í samhengi samgönguáætlunar í eðlilegri og sanngjarnri forgangsröð.

Fyrirspyrjandi spyr um hagkvæmni og svarar með tilvísun í ávinning. Þessa umræðu þarf að taka um allar aðrar framkvæmdir — eða halda menn að enginn ávinningur sé af Norðfjarðargöngum? Hvers eiga Austfirðingar þá að gjalda? Eða Vestfirðingar sem réttilega krefjast Dýrafjarðarganga? Eigum við að ræða samgöngur á Ströndum eða annars staðar þar sem brýnar samgönguúrbætur hafa beðið árum og jafnvel áratugum saman? Af nógu er að taka þar sem við blasa mjög brýnar samgönguúrbætur um land allt, mun brýnni framkvæmdir en Vaðlaheiðargöng. Það er ranglátt að ýta þessari framkvæmd fram fyrir á kostnað annarra brýnni (Forseti hringir.) framkvæmda og á kostnað annarra landshluta. Slíkt get ég hvorki stutt sem formaður samgöngunefndar né sem almennur þingmaður.