140. löggjafarþing — 75. fundur,  20. mars 2012.

Vaðlaheiðargöng.

[14:26]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja athygli á þeirri umræðu sem er í gangi. Þegar við ræðum samgöngumálin hugsum við eðlilega til fjármagns því að samgöngubætur kosta mikla fjármuni. Það er hins vegar mikilvægt fyrir okkur öll í þinginu að hugsa til þess að samgöngubætur, hverjar sem þær eru, eru einhverjar mestu byggðaaðgerðir sem hægt er að fara í á hverjum tíma. Þær eru líka atvinnuskapandi í flestum tilvikum og það verður að segjast eins og er, frú forseti, að verkþreyta hefur einkennt þessa ríkisstjórn meira en nokkuð annað, verkþreyta í að koma af stað framkvæmdum, hvort sem það er í vegamálum eða einhverju öðru. Það einkennir fyrst og fremst það hvernig staðið hefur verið að málum.

Varðandi Vaðlaheiðargöng hefur mér sýnst vandamálið fyrst og fremst vera innan ríkisstjórnarinnar og endurspeglast í deilum um það hvaða leiðir eigi að fara varðandi þessa framkvæmd. Það er búið að lýsa framkvæmdinni sem slíkri ágætlega og ekki þarf að fara frekar út í það en ég ítreka að það er mjög mikilvægt fyrir okkur öll að fjármunir til samgöngubóta verði tryggðir, það verði hvergi slegið af, hvort sem um er að ræða jarðgöng eða aðrar vegabætur. Aðrar vegabætur skipta ekki síður miklu máli því að við sem ökum til dæmis þjóðveg 1 sjáum hversu mikil viðhaldsþörf er þar á ferðinni.

Frú forseti. Það er að sjálfsögðu verksvið ráðherra ríkisstjórnarinnar að forgangsraða. Mér hefur sýnst þetta mál sem við ræðum hér einkennast meira af vandræðagangi en stefnufestu og þar er fyrst og fremst við ríkisstjórnina að sakast, ekki almenna þingmenn (Forseti hringir.) sem hafa margir hverjir mikinn og brennandi áhuga á þessu máli.