140. löggjafarþing — 75. fundur,  20. mars 2012.

Vaðlaheiðargöng.

[14:28]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Það var traustvekjandi að heyra ræðuna hjá hæstv. fjármálaráðherra áðan af því að það blasir við að mat á framkvæmdinni, áhættumat og annað, dregur mjög afdráttarlaust fram að áhættan er lítil en samfélagslegur ávinningur og ábati gífurlegur fyrir svæðið þarna og landið allt að sjálfsögðu. Það eru allar líkur á því að umferðin verði mun meiri en umferðarspár gera ráð fyrir. Umferðarspáin er varfærin, samanber orð hæstv. ráðherra áðan, og sé litið til allra fordæma um umferðarspár og vegaframkvæmdir hafa framkvæmdir eins og þessi skilað svo miklum ávinningi að umferðin verður miklu meiri.

Það er sátt um gjaldtöku og einkaframkvæmd hvað varðar Vaðlaheiðargöngin og það er mikið ánægjuefni að heimamenn hafa staðið sem einn maður um þetta verkefni. Hér er um að ræða einhverja mikilvægustu samgönguframkvæmd á landinu, auk breikkunar á Suðurlandsvegi, Norðfjarðarganga og nýs Herjólfs. Þess vegna hlýtur að vera fagnaðarefni að hægt sé að taka þessa framkvæmd út fyrir hefðbundinn ríkisfjárfestingaramma þannig að hún verði ekki til þess að tefja eða fresta öðrum framkvæmdum. Auðvitað var forsendan alltaf sú að áhættan fyrir ríkissjóð yrði lítil sem engin með ábyrgðum sínum sem fram þurfa að koma og það hefur komið fram að það virðist vera að ganga eftir. Þær áhyggjur sem uppi voru fyrr í haust um það, eðlilegar og málefnalegar áhyggjur, virðast óþarfar en það er eðlilegt að þingmenn vilji hafa vaðið fyrir neðan sig þegar ríkissjóður leggur fram ábyrgðir fyrir svo stórri framkvæmd. Áhættan virðist lítil sem engin, eins og ráðherra sagði, 100% afsláttur og allt þaðan af neðar er mikill ávinningur líka fyrir ríkið. Ég held að við getum bundið vonir við að þessar framkvæmdir fari hratt og örugglega af stað.