140. löggjafarþing — 75. fundur,  20. mars 2012.

Vaðlaheiðargöng.

[14:35]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka þeim þingmönnum sem tóku þátt í umræðunni og sérstaklega þakka ég hæstv. fjármálaráðherra fyrir að staðfesta úr ræðupúlti Alþingis að verkefnið raski ekki framgöngu annarra vegaframkvæmda. Það er einhver áróður sem því miður hefur heyrst úr munni einstakra þingmanna, eins og við heyrðum hjá hv. þm. Guðfríði Lilju Grétarsdóttur. Enn var fullyrt, þrátt fyrir orð hæstv. fjármálaráðherra og annarra í ríkisstjórninni, að framkvæmdin stæði öðrum verkum fyrir þrifum. Það er ekki þannig. Verkefnið hefur aldrei verið keyrt á þeim forsendum og það á ekki að gera lítið úr öðrum vegaframkvæmdum hringinn í kringum landið, þær eru allar mikilvægar, hver á sínum forsendum.

Það er alveg rétt að forsendurnar hafa verið þær að göngin standi undir sér. Samkvæmt skýrslum munu þau einnig gera það. En hver er reiðubúinn að lýsa yfir, með svona stóra framkvæmd, að hún sé ekki bundin áhættu? Ég er ekki reiðubúinn að gera það og eins og ég sagði í ræðu minni áðan eigum við að viðurkenna óvissuna.

Mig langar að spyrja hv. þingmenn sem finna þessari framkvæmd allt til foráttu: Af hverju eru ekki gerðar sömu kröfur til Vaðlaheiðarganga og byggingar nýs Landspítala? Hann kostar sex til sjö sinnum meira og engar rökstuddar, óhlutdrægar skýrslur liggja fyrir um verkið. (Gripið fram í: Ha?) Ég bið hv. þingmenn að sýna sanngirni og gera sömu kröfur til þessara verkefna.

Virðulegur forseti. Ég þakka enn á ný hæstv. fjármálaráðherra fyrir hennar orð og, eins og ég sagði áðan, fyrir að staðfesta að þessi framkvæmd standi ekki öðrum framkvæmdum fyrir þrifum. Það er algjört lykilatriði, þetta er gríðarlegt verkefni og ég veit að Norðlendingar (Forseti hringir.) binda þær vonir við ríkisstjórnina að hún nái að koma þessari framkvæmd af stað.