140. löggjafarþing — 75. fundur,  20. mars 2012.

efling græna hagkerfisins á Íslandi.

7. mál
[14:42]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Þetta þingmál, um eflingu græna hagkerfisins, hefur verið unnið í góðri samvinnu allra flokka á Alþingi síðustu tvö árin. Það er mikið fagnaðarefni að hin þverpólitíska samstaða hélst óslitin í hv. atvinnuveganefnd sem skilaði afbragðsvinnu í meðferð þessa máls undir dyggri forustu formanns nefndarinnar, Kristjáns L. Möllers.

Hér er að finna tæplega 50 tillögur að aðgerðum sem geta skapað verðmæti og störf í landinu okkar samhliða því að staðinn verður vörður um íslenska náttúru. Við Íslendingar getum skapað okkur sérstöðu sem grænt hagkerfi í samfélagi þjóðanna og það fellur vel að því mikla aðdráttarafli sem íslensk náttúra hefur í hugum erlendra ferðamanna sem sækja landið heim í vaxandi mæli.

Þessi dagur markar tímamót í atvinnumálum á Íslandi og ferill málsins sýnir að Alþingi getur átt frumkvæði að og staðið saman um mikilvæga stefnumótun í framfaramálum. Það er góðs viti núna þegar sótt er að þinginu úr ýmsum áttum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)