140. löggjafarþing — 75. fundur,  20. mars 2012.

efling græna hagkerfisins á Íslandi.

7. mál
[14:43]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég tek undir þau orð hv. þingmanns sem hér féllu, að ákveðin tímamót séu fólgin í því ef Alþingi samþykkir þessa tillögu. Í mínum huga er einna efst að þessi tillögugerð byggir á þeirri hugsun að ekki sé andstæða á milli hagvaxtar annars vegar og náttúruverndar hins vegar, að það fari saman, og verði að fara saman, að bæta kjör fólks í landinu og fara vel og skynsamlega með náttúruna. Það er grundvallaratriði fyrir land eins og Ísland, og fyrir okkar þjóð, því að hver og ein kynslóð á allt undir því að skila náttúrunni frá sér til þeirrar næstu í sem bestu ásigkomulagi. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Þannig eigum við að vinna og ég tel að margt í þeirri vinnu sem hér hefur verið unnin, undir forustu hv. þm. Skúla Helgasonar, hafi verið til fyrirmyndar. Það sýnir að Alþingi getur vel náð góðum samhljómi (Forseti hringir.) í svona stórum málaflokki.

Ég vil þó nefna, frú forseti, að ég gerði ákveðna fyrirvara við þessa tillögu. Þeir koma fram á þingskjölum (Forseti hringir.) og þeir hafa haldið í gegnum þá umræðu sem hefur farið fram um málið.