140. löggjafarþing — 75. fundur,  20. mars 2012.

efling græna hagkerfisins á Íslandi.

7. mál
[14:46]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég vil óska þingheimi til hamingju með þá tillögu sem liggur hér fyrir til atkvæðagreiðslu. Það er ánægjulegt að sjá að við ætlum nú að beita hagrænum hvötum til þess að ná árangri í umhverfismálum.

Ef litið er til helstu útflutningsatvinnugreina þjóðarinnar sést vel að hagsmunir atvinnulífsins og hagsmunir umhverfisverndar fara mjög vel saman ef við ætlum að ná árangri til verðmætasköpunar hér á landi. Það eru hagsmunir atvinnulífsins að við náum árangri í umhverfismálum og þeir hagsmunir samtvinnast vel í þingsályktunartillögu um grænt hagkerfi. Ég vil óska forsvarsmönnum þessa verkefnis hjartanlega til hamingju og þá sérstaklega hv. þm. Skúla Helgasyni.