140. löggjafarþing — 75. fundur,  20. mars 2012.

efling græna hagkerfisins á Íslandi.

7. mál
[14:48]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Skúla Helgasyni og fulltrúum allra flokka sem unnu þetta metnaðarfulla plagg og sýndu að með réttum vinnubrögðum er hægt að ná öllu þinginu saman í rétta átt.

Engu að síður var það þannig að í umsögnum ýmissa umsagnaraðila kom meðal annars fram að þetta plagg hefði meiri skírskotun til Miðvestur-Evrópu en Íslands, en í meðförum atvinnuveganefndar undir ágætri stjórn hv. þm. Kristjáns L. Möllers hefur okkur auðnast í samstarfi að bæta inn sjónarmiðum er snerta skógrækt, landgræðslu, íslenskan landbúnað og fleira sem gera þetta plagg enn betra. Ég held að óhætt sé að taka undir orð þeirra hv. þingmanna sem hafa komið upp og sagt að þetta séu tímamót, við séum að ná saman um annars vegar umhverfisvernd og hins vegar eflingu atvinnulífsins þar sem það helst í hendur.

Þetta er gleðilegur dagur og ég legg til að við greiðum öll þessari þingsályktunartillögu atkvæði.