140. löggjafarþing — 75. fundur,  20. mars 2012.

efling græna hagkerfisins á Íslandi.

7. mál
[14:51]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Eins og komið hefur fram er hér um töluvert pólitísk tímamót að ræða, ekki bara fyrir þingið á Íslandi heldur fyrir íslenskt samfélag. Hér er lagt upp með þverpólitíska tillögu um nýja sýn á þróun hagkerfisins á Íslandi og ber vott um framsýni og víðsýni þeirra þingmanna sem þetta þing skipa og er ekki laust við að það veki manni von í brjósti að við getum oftar en ekki stigið skynsamleg skref inn í framtíðina.

Hér er um að ræða ekki bara stefnu heldur ekki síður verkfæri. Það er kannski það allra mikilvægasta við þetta plagg, að hér er um verkfæri að ræða. Ég vil óska hv. þm. Skúla Helgasyni sérstaklega til hamingju með daginn og til hamingju með glæsilega vinnu, góða samstöðuvinnu sem er ekki heiglum hent í því pólitíska andrúmslofti sem ríkt hefur verið á þessu kjörtímabili. Að samtvinna græn sjónarmið öðrum sjónarmiðum er áskorun og það hefur tekist í þessum efnum. (Gripið fram í.)