140. löggjafarþing — 75. fundur,  20. mars 2012.

Farsýslan, stjórnsýslustofnun samgöngumála.

272. mál
[15:04]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Guðfríður Lilja Grétarsdóttir) (Vg):

Forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um Farsýsluna, stjórnsýslustofnun samgöngumála, og frumvarp til laga um Vegagerðina, framkvæmdastofnun samgöngumála.

Með frumvörpunum er lagt til að settar verði á fót tvær stofnanir, annars vegar Farsýslan, stofnun sem sinni stjórnsýslu og eftirliti á sviði samgöngumála, og hins vegar Vegagerðin, stofnun sem sinni framkvæmdum og viðhaldi samgöngumannvirkja ásamt því að fara með eignarhald og sinna rekstri þeirra. Ætlunin er að stofnanirnar verði reistar á grunni núverandi samgöngustofnana, þ.e. Siglingastofnunar Íslands, Flugmálastjórnar Íslands, Umferðarstofu og Vegagerðarinnar.

Ljóst er að möguleikar til sameiningar í þessum efnum hafa um langt skeið verið ræddir á breiðum grunni og ítarlegur undirbúningur liggur að baki fyrirliggjandi frumvörpum. Meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar telur brýnt að sú endurskipulagning stofnana sem hér um ræðir fari fram og að allri óvissu um tilhögun þessara mála verði eytt.

Sú athugasemd var gerð við 4. gr. frumvarps til laga um Farsýsluna, stjórnsýslustofnun samgöngumála, að ekki væri rétt að kveða á um að Farsýslan tæki afstöðu til tillagna sem bærust frá rannsóknarnefnd samgönguslysa þar sem frumvarp til laga um slíka rannsóknarnefnd hefur ekki verið lagt fram á Alþingi. Meiri hlutinn tekur undir þessa athugasemd og gerir þá tillögu til breytingar á greininni að stofnuninni verði skylt að taka afstöðu til tillagna sem berast frá þeim opinberu aðilum sem annast rannsókn samgönguslysa. Með því vísar meiri hlutinn til núverandi rannsóknarnefnda sjóslysa, flugslysa og umferðarslysa eða annarra þeirra opinberu aðila sem taka munu við slíkum rannsóknum komi til breytinga á þessu sviði.

Í umsögnum þeirra stofnana sem ætlunin er að sameina kom meðal annars fram hvatning til þess að staðið yrði við gefin loforð um að réttindi starfsmanna þeirra yrðu ekki skert við samþykkt frumvarpanna og að þeim yrðu boðin sambærileg störf á sambærilegum kjörum hjá nýjum stofnunum auk þess sem biðlaunaréttur starfsmanna yrði tryggður. Það er skilningur meiri hlutans að með ákvæði til bráðabirgða við lögin verði þeim starfsmönnum samgöngustofnana sem sinnt hafa verkefnum sem eftir sameiningu þeirra munu heyra undir Farsýsluna eða Vegagerðina veitt trygging fyrir sambærilegu starfi á sambærilegum kjörum hjá nýrri stofnun. Meiri hlutinn áréttar jafnframt að framkvæmdarvaldinu ber að gæta þess vel að varðveita og efla þá þekkingu sem til staðar er hjá íslenskum samgöngustofnunum og búa svo um hnútana að fagþekking á sviði flugmála, siglinga, veglagningar, umferðar og á fleiri sviðum glatist ekki heldur eflist í kjölfar endurskipulagningar.

Gert er ráð fyrir því í frumvörpunum að lögin taki gildi 1. júlí nk. Meiri hlutinn telur einsýnt að heppilegra sé að gefa rýmri fyrirvara á því að hrinda í framkvæmd svo umfangsmiklum breytingum. Leggur meiri hlutinn því til að gildistökuákvæðum verði breytt á þann veg að ákvæði laganna taki þegar gildi en lögin komi til framkvæmda 1. janúar 2013.

Meiri hlutinn leggur til að frumvörpin verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstökum þingskjölum. Fylgiskjal er með þessu nefndaráliti sem er nefndarálit meiri hluta samgöngunefndar, þeirrar fyrri, því að málið hefur áður verið lagt fram og lágu fyrir fjölmargar umsagnir frá því að það var lagt fram á fyrra þingi. Þar er farið ítarlega í ýmsa þætti þessa máls.

Undir þetta álit skrifa auk þeirrar sem hér stendur Ólína Þorvarðardóttir, Þuríður Backman, Róbert Marshall, Mörður Árnason og Atli Gíslason.

Ég ætla ekki að hafa frekari orð um málið enda hefur það, eins og fram hefur komið, verið í vinnslu í meira en þrjú og hálft ár, ég læt því máli mínu lokið.