140. löggjafarþing — 75. fundur,  20. mars 2012.

Farsýslan, stjórnsýslustofnun samgöngumála.

272. mál
[16:11]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel nú að þessi ummæli hv. þingmanns hafi verið frekar ómakleg í minn garð. Ég ætla bara að ítreka það sem ég sagði. Ég tel að það sé þessu málefni til heilla að draga saman á einn stað allt sem lýtur að málefnum hafs og stranda. Ég var alls ekki að tala um það að hér ætti bara að vera eitthvert eitt lén, helst óbreytt og gengi í erfðir eins og hv. þingmaður sagði, alls ekki. Ég er að tala um mikilvæga hagsmuni hafsins í kringum Ísland. Ég tel ekki að þó að hægt sé að fá einhvern fjárhagslegan ávinning af sameiningu stofnana eigi ekki að horfa á hinn faglega ávinning líka. Hann verður að sjálfsögðu að vera með í myndinni.

Ég tel að farið sé aftur á bak faglega með því að setja málefni hafsins undir Vegagerðina eins og hér er lagt til og skilja svo aðra þætti hafsins eftir einhvers staðar annars staðar. Ég tel sömuleiðis að menn hafi ekki nýtt þau tækifæri sem gáfust þegar málið var ekki afgreitt á síðasta þingi til að fara rækilega yfir það. Hv. þingmaður segir: Þetta er óljós hugmynd um stofnun hafs og stranda. Af hverju hefur ekki verið gerð úttekt á því þegar í skýrslum liggur fyrir að þetta sé einn af þeim kostum sem ætti að skoða sérstaklega? Það hefur ekki verið gert, það er það sem ég er að gagnrýna.

Þegar spurt er hvort ég vilji fórna þessum ávinningi þá tel ég ekki að um ávinning sé að ræða hvað þennan þátt málsins snertir. Og ég er ekki reiðubúinn til að styðja málið að óbreyttu eins og það liggur fyrir af þeim sökum. Ég held að það sé nokkuð skýrt.