140. löggjafarþing — 75. fundur,  20. mars 2012.

Farsýslan, stjórnsýslustofnun samgöngumála.

272. mál
[17:07]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þá ágætu umræðu sem hér hefur farið fram. Eðli máls samkvæmt eru það einkum þeir sem eru málinu andvígir, eða hafa einhverja gagnrýni fram að færa, sem láta að sér kveða í umræðu um þingmál á þessu stigi en hinir þá fjarri sem eru málinu samþykkir, sem eru mjög margir vegna þess að þær kerfisbreytingar sem lagðar eru til njóta almennt mikils stuðnings og þykja vera framfaraskref.

Ég verð að viðurkenna, hæstv. forseti, að ég hélt að farið væri að ræða um eitthvað allt annað mál þegar ég hlýddi á hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur fyrr í dag þegar hún fjallaði um vinnubrögðin við frumvarpssmíðina. Reyndar hafa ýmsir aðrir haft uppi stór orð um hroðvirknisleg vinnubrögð. Þetta eru mjög ómakleg ummæli í garð þess starfsfólks innanríkisráðuneytisins og þeirra stofnana sem í hlut eiga og hafa komið að smíði þessara frumvarpsdraga.

Ég er að vísa í vinnu sem hefur farið fram í mörg ár. Vinnunefndir hafa komið þar að og starfshópar sem hafa skoðað einstaka verkþætti í málinu. Ekki er þar með sagt að allir séu á einu máli um hver niðurstaðan eigi að vera en eftir mikla og ítarlega umræðu, mikla gagnasöfnun, er þetta niðurstaðan. Því er haldið fram við umræðuna að það hafi ekki verið gaumgæft í sumar, eða frá því að þing kom síðast saman, hvort eigi að ráðast í annars konar breytingar en hér eru lagðar til, t.d. stofnun hafs og stranda. Þetta er alrangt. Þetta hefur verið rætt í innanríkisráðuneytinu í sumar. Kallaðir hafa verið til sérfræðingar og við höfum farið gaumgæfilega yfir þessi mál og þetta er niðurstaðan. Síðan er það þingsins að taka ákvörðun um hvað það vill gera.

Þegar við skoðum stjórnsýsluna þá skiptir máli hvaða sjónarhól við veljum okkur til að horfa á samfélagið og þar með stjórnsýsluna. Við höfum verið að ræða skipulagsbreytingar á Stjórnarráðinu. (Gripið fram í: Illu heilli.) — Það er ekki „illu heilli“ að ræða neitt mál, og það er skylda okkar í þinginu. — Á að skoða atvinnuvegina og skipuleggja stjórnsýsluna í kringum hverja atvinnugrein fyrir sig eða á að horfa heildstætt á atvinnumálin í einu ráðuneyti? Sama gildir um aðra málaflokka. Nákvæmlega þetta hefur verið til skoðunar þegar samgöngumálin hafa komið til álita. Á þá að horfa á sjóinn sérstaklega, landið sérstaklega, loftið sérstaklega eða eigum við að halda áfram á þeirri braut sem hefur verið mörkuð og birtist okkur meðal annars í samgönguáætlun Alþingis? Ég tel að það hafi staðið okkur fyrir þrifum að hafa ekki verið með samsvarandi mynd í stofnanakerfinu og það er nákvæmlega þetta sem nú á að fara að gera, að setja undir sömu regnhlífina samgöngur á sjó, á landi og í lofti.

Menn hafa til dæmis verið að ræða um samgöngur á Ströndum og þá hafa menn horft sérstaklega á vegina þegar við þurfum um leið að hafa hliðsjón af því sem býðst í loftinu, flugvöllurinn á Gjögri, ég nefni það sem dæmi. Við sitjum yfir því langar stundir nú í innanríkisráðuneytinu að finna með hvaða hætti við getum leyst samgöngurnar við Vestmannaeyjar um Landeyjahöfn. Hverjir koma að þeirri vinnu? Hverjir sitja við það vinnuborð? Það eru sérfræðingar og fulltrúar Vegagerðarinnar annars vegar og Siglingastofnunar hins vegar. Þeir eru að fást við sameiginlegt verkefni.

Þegar látið var af fjárstuðningi við flugvöllinn á Sauðárkróki, sem er mjög umdeilt mál, var það meðal annars gert með hliðsjón af því hvað gerðist í vegakerfinu á landinu vegna þess að það er sameiginlegt verkefni að koma fólki og vörum frá einum stað á annan. Að sjálfsögðu þurfum við að hafa þarna heildarmyndina undir og það er þetta sem við erum að gera, að láta stjórnsýsluna spegla hin raunverulegu viðfangsefni. Við megum ekki vera svo íhaldssöm að við treystum okkur aldrei til að gera breytingar á stjórnsýslunni. Og það er engu líkara en ýmsir trúi því að með breytingum á stofnanakerfinu sé þar með verið að leggja af þau verkefni sem þær stofnanir sem í hlut eiga sinntu, hvort sem það eru rannsóknir á norðurslóðum eða eitthvað annað. Við erum fyrst og fremst að ræða það núna frá hvaða hæð í stjórnsýslubyggingunni Íslandi þessum verkefnum er stýrt. Það er verkefnið sem við erum að fást við og þá spyrjum við: Hvað er hagkvæmast að gera í þessum efnum?

Sú nefnd sem hér hefur verið vísað til, og gerði frumdrögin að þessum breytingum, varð sammála um eitt: Að Farsýslan væri góður kostur. Það sem ágreiningur hefur verið um hefur legið í hinni stofnuninni, Vegagerðinni, og hvort við erum að setja of mikið, of marga þætti, undir þann hatt. Þá hafa menn horft sérstaklega til tiltekinna þátta á verksviði Siglingastofnunar; rekstur og viðhald vita og sjómerkja, rekstur og viðhald leiðsögu, vöktunar, upplýsinga- og eftirlitskerfa. Hvar var ég að lesa þetta? Ég var að lesa þetta úr 6. gr. í frumvarpi um Vegagerðina þar sem … (VigH: Það er ekki til umræðu.) Jú, jú, það er til umræðu, hv. þingmaður. (Gripið fram í: Bæði frumvörpin.) Bæði frumvörpin eru undir. Ég er að vísa til verkþátta sem Vegagerðin kemur til með að hafa með höndum og eru tiltekin í 6. gr.

En það kemur líka fram í þeirri grein að unnt sé að fela öðrum stofnunum tiltekna verkþætti. Við erum ekkert búin að gefa okkur um alla framtíð hvar vistun þessara þátta verður. Við heyrðum vangaveltur um þetta áðan. Þar var talað um, eins og ég gat um fyrr, stofnun hafs og stranda þar sem undir hatt Landhelgisgæslunnar yrði færður rekstur vita og leiðsögu á sjó, Vaktstöð siglinga sem er í Skógarhlíðinni, eftirlitsstöð Fiskistofu og hv. þm. Ásbjörn Óttarsson bætti Hafrannsóknastofnun við. Þetta eru vangaveltur, menn gætu sameinast og orðið sammála um einhverja tiltekna þætti en ekki endilega alla.

Síðan var bent, réttilega tel ég vera, á flugvellina, á Isavia. Hvers vegna er Isavia ekki undir þessum hatti? Mér finnst þetta góð ábending. Mér finnst þetta alveg raunverulegur kostur að íhuga, enda segir í 6. gr. frumvarpsins, með leyfi forseta:

„Vegagerðinni er heimilt að taka að sér uppbyggingu, rekstur og viðhald flugvalla samkvæmt samningi við þar til bæra aðila.“

Það er verið að opna á það að innanlandsflugið og innanlandsflugvellirnir fari undir þessa stofnun. Við erum ekkert að gefa okkur í þessum efnum. Við erum hins vegar núna að skapa rammann og síðan ætlum við að þróa stjórnsýsluna áfram. Hún á eftir að breytast. Þetta er engin endanleg gerð en þetta er hagkvæmari rammi um vinnsluborðið, teljum við vera.

Þá kemur að spurningunni um fjárhagslegan ávinning. Ég tek undir þá gagnrýni sem komið hefur fram hvað þetta snertir og vísa þá til 1. umr. um málið. Ég hlýddi á þá gagnrýni sem fram kom þá og tók undir hana og hv. formaður samgöngunefndar vísaði einnig í umræðu um þessi mál, sem væru á ábyrgð innanríkisráðuneytisins sem hefði reitt þessar upplýsingar fram. Þetta er líkindareikningur, það er rétt. Og menn eru að gefa sér að þegar til framtíðar er litið muni verða af þessu verulegur fjárhagslegur ávinningur þótt meginmarkmiðið sé að styrkja þá starfsemi sem fram fer innan þessara stofnana og þá án þess að það þýði meiri fjárútlát og hafi þann ávinning í för með sér sem þarna greinir frá. En þetta er háð ýmsum háttum.

Það er nefnilega stundum svolítið dýrt að vera fátækur. Ef við hefðum verulega fjármuni á milli handa gætum við náð miklu meiri ávinningi með kerfisbreytingunum en við getum gert með lítið handa á milli. Hvers vegna? Til dæmis vegna þess að við getum ekki ráðist í dýrar breytingar á húsnæði, nokkuð sem við gætum gert í einu vetfangi ef við værum svolítið múruð. Það erum við bara ekki núna. En með hraðvirkum breytingum af því tagi, á húsnæðinu og allri aðstöðu, þá er hægt að ná fram miklum sparnaði. Þetta er nánast svona á öllum sviðum. Ef við gætum tölvuvætt og rafvætt alla stjórnsýsluna í einu vetfangi, það mundi kosta okkur mikla peninga en það mundi gefa okkur mikinn fjárhagslegan ávinning, þetta er allt spurning um tíma hvað þetta snertir.

Ég segi: Við skulum ekki tefja þessa framþróun. Við skulum láta þessar kerfisbreytingar ná fram að ganga, skapa þessa umgjörð um starfsemina. Ég er sannfærður um að hún er til góðs, ég er sannfærður um að enginn mun bíða skaða af þessu. Þetta er bara til góðs. Við erum ekki heldur að loka neinum dyrum á frekari framþróun. Við erum ekki að loka á það að tilteknir þættir, sem falla samkvæmt þessari löggjöf undir Vegagerðina, gætu ekki færst annað, við erum ekki að segja það. Við ætlum að þróa þessa umræðu áfram en við verðum að létta óvissunni sem yfir þessu ríkir núna. Ef við ekki klárum þetta mál nú í vor þá spái ég því að á næsta ári, kosningaári, verði enn frekari frestun á þessu. Það er engum til góðs en mörgum til ills.