140. löggjafarþing — 75. fundur,  20. mars 2012.

Farsýslan, stjórnsýslustofnun samgöngumála.

272. mál
[17:27]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir ræðuna.

Mig langar, af því að hæstv. ráðherra sagðist gera athugasemd við málflutning hv. þingmanns og nefndi hann á nafn, sagði síðan að fram hefði komið í máli sumra annarra einhver gífuryrði um hroðvirknisleg vinnubrögð ráðuneytisins, að inna hæstv. ráðherra eftir því þar sem voru ekki mjög margir í þessari umræðu hvort honum hafi nokkuð verið hugsað til mín þegar hann nefndi það.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hafi fulla trú á því að markmið um sparnað náist, sérstaklega í ljósi þess sem kemur fram í frumvarpinu sjálfu um að ekki sé alveg vitað hvernig þetta eigi að skiptast á milli þessara tveggja stofnana.

Svo vil ég líka inna hæstv. ráðherra eftir því sem hann kom inn á í ræðu sinni þegar hann sagði að það væri oft dýrt að vera fátækur og vitnaði þá einmitt til þess hvað væri hægt að gera í sambandi við húsnæðismál, þ.e. ef menn hefðu nóga peninga væri hægt að fara í ákveðnar breytingar. Mig langar að kalla eftir svari frá hæstv. ráðherra við því hvernig hann sjái þetta fyrir sér, hvort við nýtum hugsanlega einhver núverandi húsnæði í þessa starfsemi eða hvort farið verði í tvö ný húsnæði og hvort fyrir liggi upplýsingar um hvernig það muni ganga.

Að lokum langar mig að bæta við þriðju spurningunni. Hún er sú hvort hæstv. ráðherra sjái möguleika á frekari hagræðingu og þar af leiðandi frekari sparnaði en hér er lagt til með Vegagerðina og stofnun Farsýslu og ganga þá skrefi lengra, eins og komið hefur fram í máli margra hv. þingmanna í umræðunni hér í dag.