140. löggjafarþing — 75. fundur,  20. mars 2012.

Farsýslan, stjórnsýslustofnun samgöngumála.

272. mál
[17:38]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Guðfríður Lilja Grétarsdóttir) (Vg):

Forseti. Mig langaði bara til að koma rétt í lokin og þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur átt stað. Ég hef hlustað af mikilli athygli á allt sem hér hefur verið sagt og ég vil bara taka örstutt á örfáum punktum í lok þessarar umræðu.

Í fyrsta lagi hefur mikið verið bent á og vitnað í álit fyrri samgöngunefndar. Þá vil ég minna á þá einföldu staðreynd að málið var ekki afgreitt frá þinginu. Það fékkst ekki afgreitt. Eins og ég nefndi í upphafi máls míns voru fjórir af þeim sex nefndarmönnum sem skrifuðu undir fyrra álit fyrri samgöngunefndar í málinu á þessu nýja nefndaráliti. Sú vinna sem áður hefur verið unnin hefur því nýst og við sem stöndum að þessu áliti erum þeirrar skoðunar að brýnt sé að afgreiða þetta mál eins og það stendur nú, og að það komi ekki í veg fyrir, eins og hér hefur komið fram, að áfram sé unnið með frekari breytingar innan stjórnsýslunnar. Það kemur ekki í veg fyrir það.

Spurningin sem fólk verður í reynd að gera upp við sig í þessum sal fyrir vorið hvað þetta mál varðar er að mínu viti: Vill það óbreytt ástand, algjörlega óbreytt ástand eða vill það samþykkja þennan ramma utan um skipulagsbreytingar og svo í framhaldinu viðurkenna að að sjálfsögðu eru enn þá opnir gluggar fyrir áframhaldandi þróun stjórnsýslunnar? Þetta er mjög mikilvægt atriði sem mér finnst rétt að komi fram.

Það er alveg ljóst að málið mun fara aftur til nefndar og þar munum við fara yfir helstu atriði sem hér hafa komið fram og ræða þau og taka í framhaldinu ákvörðun um hvort við leggjum til einhverjar frekari breytingar eða setjum fram tilmæli um tiltekna skoðun á málinu. Ég vil ítreka enn og aftur þá afstöðu okkar sem stóðum að fyrra áliti og sem standa að álitinu núna, auk þeirra hv. þingmanna Þuríðar Backman og Atla Gíslasonar, að það sé afar mikilvægt að afgreiða þetta mál núna. Annars stefnum við því í voða og stefnum í áframhaldandi óvissu um nokkrar málalyktir í þessum efnum.