140. löggjafarþing — 75. fundur,  20. mars 2012.

Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað.

346. mál
[17:46]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek orð hv. þm. Ragnheiðar Ríkharðsdóttur góð og gild í þessu sambandi en vil nota þetta tækifæri til að vekja athygli á því sjónarmiði sem hefur komið fram í málsmeðferð innan stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar út af öðru þingmáli, að það er mikilvægt, hvernig sem að málum af þessu tagi er staðið, hvort sem um er að ræða prentaða útgáfu, rafræna útgáfu og kannski enn þá frekar þegar um rafræna útgáfu er að ræða, að þannig sé gengið frá gögnum að óvandaðir aðilar geti ekki síðar breytt þeim í þessu sambandi. Það getur haft gríðarlega mikla þýðingu varðandi sönnunarfærslu í málum, hvort sem er dómsmálum eða stjórnsýslumálum eða öðru slíku. Þetta eru því gríðarlega mikilvæg gögn og mikilvægt að þau séu varðveitt með þeim hætti að ekki sé unnt að eiga við þau eftir á, hvorki þannig að það geti gerst af hálfu utanaðkomandi óprúttinna aðila né í því stjórnarfari sem ég vísaði til í dæmaskyni í fyrra andsvari mínu.