140. löggjafarþing — 75. fundur,  20. mars 2012.

náttúruvernd.

225. mál
[18:12]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. framsögumanni fyrir ræðu hennar sem var mjög ítarleg enda málið mjög flókið.

Fram hefur komið og kemur meðal annars fram í greinargerð með frumvarpinu að nú standi yfir heildarendurskoðun á náttúruverndarlögum. Ég vil spyrja hv. þingmann: Af hverju var þeirri heildarendurskoðun ekki leyft að klárast, af hverju er verið að taka þessa tilteknu þætti út fyrir sviga núna í stað þess að leggja fram þessar breytingar þegar sú endurskoðun liggur fyrir? Hefði ekki verið nærtækara að koma með þetta allt saman í einu plaggi?

Varðandi friðlýsingarbreytinguna sem kemur inn í meðförum nefndarinnar og á rætur sínar að rekja til umhverfisráðuneytisins þá fór hv. þingmaður yfir að hún byggði á náttúruverndaráætlun frá 2009–2013. Sú náttúruverndaráætlun lá væntanlega fyrir þegar frumvarpið var samið og því vil ég spyrja: Af hverju var hún ekki inni í upphaflega frumvarpinu?