140. löggjafarþing — 75. fundur,  20. mars 2012.

náttúruvernd.

225. mál
[18:13]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Guðfríður Lilja Grétarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Forseti. Það er hárrétt sem kemur fram í máli hv. þingmanns að fyrir liggur heildarendurskoðun á náttúruverndarlögum og út er komin hvítbók um náttúruvernd sem er gríðarlega mikilvægt og áríðandi plagg að mörgu leyti. Það var niðurstaða nefndarinnar sem unnið hefur með þessi mál að þessir tveir liðir væru brýnastir, þ.e. akstur utan vega og sérstök vernd.

Meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar tekur heils hugar undir hversu brýnt sé að bæta úr stöðunni í þessum efnum sérstaklega. Akstur utan vega er stórkostlegt náttúruverndarmál sem allir flokkar á Alþingi ættu að taka á og líta á sem sitt hagsmunamál. Eins og kom fram í máli mínu eru engan veginn til næg úrræði til að taka á akstri utan vega sem eyðir náttúrunni, og sama má segja um 37. gr. laga um náttúruvernd, hún hefur ekki reynst eins sterk vörn og við hefðum kosið. Eins og hér kemur einmitt fram þarf sérstaklega að huga að votlendinu. Vernd votlendissvæða er eitt af þeim brýnu alþjóðlegu umhverfismálum sem við stöndum frammi fyrir sem og birkiskógurinn.

Varðandi friðlýsinguna sérstaklega get ég auðvitað ekki svarað því hvers vegna hún var ekki í upphaflega frumvarpinu. Hæstv. ráðherra getur kannski svarað því síðar. Hins vegar þegar komu fram ábendingar og tillögur frá ráðuneytinu til nefndarinnar um að gera bragarbót á þessu fórum við í gegnum það og kölluðum eftir gestum, og einmitt vegna þess að þetta er eins og ég sagði áðan tæki til að framfylgja þegar samþykktri náttúruverndaráætlun (Forseti hringir.) fannst okkur rétt að bregðast við eins og við gerðum.