140. löggjafarþing — 75. fundur,  20. mars 2012.

náttúruvernd.

225. mál
[18:17]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Guðfríður Lilja Grétarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Forseti. Nei, þetta frumvarp hefur ekki áhrif á röðunina í rammaáætlun eða það starf sem fer fram við hana. Við komum inn á rammaáætlunina í nefndarálitinu að því leyti að við teljum rétt að landsvæði sem falla í verndarflokk verndar- og orkunýtingaráætlunar sé hér inni, en þetta hefur engin áhrif á vinnuna við rammaáætlun. Góðu heilli ætti þetta frumvarp hins vegar að hafa þau áhrif að við munum styrkja þó nokkuð stöðu íslenskrar náttúru gegn ágangi þeirra sem fara illa með hana, eins og með akstri utan vega, og vernda sérstaklega þau svæði sem okkur ber ekki bara sem Íslendingum heldur á alþjóðavísu að vernda enn frekar en við gerum en allt of veik vörn hefur reynst í gildandi náttúruverndarlögum. Ég ítreka að þetta hefur ekki áhrif á þá vinnu sem fer fram innan rammaáætlunarinnar.