140. löggjafarþing — 75. fundur,  20. mars 2012.

náttúruvernd.

225. mál
[18:21]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Guðfríður Lilja Grétarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Forseti. Hv. þingmaður spurði hvort fulltrúar landeigenda hefðu komið á fund nefndarinnar og þeir gerðu það reyndar. Ef þeir eru ekki taldir upp eru það mistök sem ber að leiðrétta. Þeir voru reyndar fyrst og fremst kallaðir til til að fara yfir þættina er vörðuðu friðlýsingu en fengu kost á að tjá sig einnig almennt um frumvarpið.

Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson segir að honum sé ekkert sérstaklega rótt þó að meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar telji að hér sé gengið á eignarréttinn eða hann skertur. Þá get ég upplýst hv. þingmann um að mér er ekkert sérstaklega órótt þó að hann lýsi þeirri pólitísku skoðun sinni að hér sé ef til vill verið að ganga á eignarréttinn. Við teljum, eins og kom fram í máli hv. þingmanns, að ekki sé verið að skerða stjórnarskrárbundinn eignarrétt manna. Það sem þetta snýst um og vantar mun dýpri umræðu um almennt bæði í þessum þingsal og í samfélaginu, er að það fylgir því ábyrgð að eiga land hvort sem er í eigu þjóðarinnar eða eigu einstakra einstaklinga og það er ekki sama hvernig með það er farið. Það fylgir því ábyrgð að keyra um á hálendinu og það má ekki skemma náttúruna með akstri utan vega sem brýtur gróflega gegn náttúrunni og veldur spjöllum. Þetta snýst um að það er sama hvort land er í eigu þeirrar sem hér stendur eða einhvers annars, ég get ekki farið með það eins og hverja aðra verslunarvöru sem ég get hent eða gengið um eins og mér sýnist. Þar koma til einmitt hagsmunir náttúrunnar sem ekki getur talað heldur þurfum við að passa (Forseti hringir.) upp á hana fyrir hennar hönd og einnig hagsmunir okkar allra, að það varði almannahagsmuni að rýra ekki vistkerfi landsins (Forseti hringir.) og náttúrunnar sem slíkrar.