140. löggjafarþing — 75. fundur,  20. mars 2012.

náttúruvernd.

225. mál
[18:28]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Hæstv. forseti. Þau láta ekki alltaf öll mikið yfir sér málin sem við fjöllum um hérna en þegar við förum að rýna í þau og umsagnaraðilar senda inn umsagnir sínar kemur oft meira í ljós. Ég held að hér sé eitt slíkt mál á ferðinni.

Sá sem hér stendur er ekki í umhverfis- og samgöngunefnd en hefur stundum komið þar við til að sinna einstökum málum og málaflokkum. Ég hef mikinn áhuga á þessum málaflokki, bæði hvað varðar umhverfisvernd og nýtingu lands.

Það voru áhugaverðar umræður áðan og ég tók eftir því að hv. formaður umhverfis- og samgöngunefndar, hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, spurði: Hvað erum við að tala um hér? Ég held að menn séu almennt alveg sammála um að stöðva eigi utanvegaakstur á hálendi Íslands. Í fyrirsögn frumvarpsins er talað um náttúruvernd, utanvegaakstur og að herða tök stjórnsýslunnar á þeim sem sannarlega eru sekir um utanvegaakstur svo hægt sé að taka á þeim málum. Það held ég að allir séu meira og minna sammála um og getur þá farið, eins og við ræddum hér í dag varðandi eflingu græna hagkerfisins, að allir þingmenn í salnum séu sammála um að fara í þá vegferð.

Hvernig eigum við að gera það? Hvernig stöndum við að því að herða ákvæði um utanvegaakstur og hvaða atriði önnur eru í frumvarpinu sem ekki eru í fyrirsögn þess og maður kynnir sér betur þegar maður les frumvarpið og allar umsagnirnar? Þá kemur ýmislegt annað í ljós. Ég prentaði út umsagnalistann og listann yfir þá sem talið var upp að komið hefðu sem gestir. Þetta er langur listi og þarna eru talsvert margar umsagnir. Langflestir fengu tækifæri til að gefa umsögn og var kallað eftir þeim á fund nefndarinnar. En þeir sem ekki komu voru, samkvæmt nefndarálitinu: Landssamband veiðifélaga, Landssamtök landeigenda, sem hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir upplýsti reyndar um að hefðu komið vegna einhvers annars og hefðu þá fengið tækifæri til að fjalla um þetta mál, Landsvirkjun, Skipulagsstofnun og Auður Sveinsdóttir landslagsarkitekt. Allir aðrir sem sendu inn umsagnir komu fyrir nefndina og auk þess fulltrúar frá umhverfisráðuneyti. Það er ekkert óeðlilegt við að umhverfisráðuneytið hafi komið þarna að málum eða fulltrúi frá nefnd um endurskoðun náttúru. Þeir voru kallaðir fyrir nefndina án þess að hafa sent inn umsagnir. Jafnframt komu fulltrúar frá Ferðaklúbburinn 4x4, Útivist og Ferðafélagi Íslands sem gestir á fund nefndarinnar án þess að hafa sent inn umsagnir.

Þá fer maður að velta fyrir sér: Af hverju var ekki haft meira samráð við landeigendur ef ekki var einungis verið að tala um utanvegaakstur á hálendi heldur var líka blandað þarna inn utanvegaakstri á landareignum? Af hverju er verið að sá þeim tortryggnisfræjum hjá til dæmis Bændasamtökum Íslands, sauðfjárbændum og Landssamtökum landeigenda eða Landssamtökum veiðifélaga, að hér þurfi sérstaka reglugerð og heimild frá ráðherra eftir tillögu Umhverfisstofnunar til að mega fara um sitt eigið land? Er það vegna þess að meiri hluta nefndarinnar finnst það vera vandamál? Er það hið pólitíska mat að utanvegaakstur á landareignum bænda sé stórkostlegt vandamál? Er sú raunin, og þess vegna þurfi að setja það vald til ráðherra?

Af hverju var ekki hægt að hafa samráð við þessa aðila? Samband íslenskra sveitarfélaga tekur það sérstaklega fram í umsögn sinni að samráð það sem haft var um málið hafi verið lofsvert. Af hverju gátu Bændasamtök Íslands og Landssamtök landeigenda ekki lokið slíku lofsorði á samráðið? (Gripið fram í.) Af hverju var þessi þáttur ekki tekinn þarna inn til þess að eyða tortryggni um að verið sé að herða tökin og gera það sérstaklega leyfisskylt fyrir landeigendur og að þeir þurfi að sækja um leyfi hjá ráðherra til að fara út á tún að snúa? Svona geta menn snúið út úr tillögunni.

Á að setja inn GPS-mæli á túnveginn? Vill landeigandinn það? Vilja menn að Landmælingar Íslands skilgreini túnveginn sem slóða, án samráðs við skipulagsvald sveitarfélaga, sem hver og einn sem skoðar kort geti síðan keyrt þar um og sagt: Það er almannaréttur minn að keyra eftir þessu korti? Allir eru sammála um að skynsamlegt sé, og það hefur verið gert núna um alllangt skeið í samráði sveitarfélaga og ríkis og frjálsra félagasamtaka, að reyna að kortleggja slóða á hálendi Íslands setja þá slóða á kort sem menn eru sammála um að eigi að vera merktir sem slíkir og fækka slóðum á hálendinu. Það er gert í samráði við skipulagsvald sveitarfélaganna. Einkaaðilar hafa gefið út kort og síðan hafa ýmsir aðilar nýtt sér þau og sagt: Hér er kort, hér er slóði, það stendur á þessu korti að ég megi fara þennan slóða, og svo aka menn eftir honum á fjórhjólum og vélhjólum og alls kyns tækjum og tólum. Það er búið að vera vandamál, það þarf að stoppa. Það er eitt af því góða sem er í frumvarpinu.

Af hverju þurfti að víkka út reglurnar og láta þær ná til landeigenda? Af hverju þurfa mál sem snúa að landeigandanum að heyra undir Umhverfisstofnun? Náttúrufræðistofnun á að veita umsagnir um slíka hluti og annað í þeim dúr, af hverju? Var einhver tilgangur með því? Er einhver forsenda í áliti meiri hlutans sem leiðir til þess að landeigendum er ekki treyst til að fara um sitt eigið land til smalamennsku? Þarf reglugerðarheimild ráðherra til þess að smala kindum eða til uppgræðslu lands? Ég þekki fjölmarga bændur sem hafa lagt mikið á sig bæði í eigin landi og á hálendi Íslands til að græða upp land og fara um á stórvirkum tækjum. Landið hefur gjörbreyst, það er komin græn slikja og fjölbreyttur gróður á það sem áður var örfoka land.

Eiga þessir aðilar nú á hættu að í hvert sinn sem boðað er til slíkrar ferðar inn á hálendið eða í hvert sinn sem þeir ætla að græða upp land á sinni eigin jörð, að þurfa að fara í sérstakt leyfisferli til umhverfisráðherra? Eru þeir háðir mati einhverra embættismanna hjá Umhverfisstofnun sem leggja það til við ráðherra að reglugerðin verði hert og henni breytt á morgun eða eftir tvö eða tíu ár? Á hvaða slóðum erum við? Hvers vegna var verið að sá þessum tortryggnisfræjum í frumvarpið þegar við erum öll sammála um það hér inni að stöðva þarf utanvegaaksturinn á hálendi Íslands þar sem ferðaþjónustan og ýmsir aðilar hafa farið um nokkuð frjálslega og keyrt um á alls kyns tækjum og tólum? Við þekkjum öll dæmi þess. Lögregla hefur átt í erfiðleikum að ná til þessa fólks og jafnvel þó að það náist er erfitt að sekta það eða koma fram refsiábyrgð.

Þarna er þó einhver þáttur sem við erum öll sammála um, hitt vekur bara tortryggni. Til hvers er verið að þessu? Hægt er að vísa í fjölmargar umsagnir sem fjalla einmitt um þetta atriði. Hægt er að hártoga þetta fram og til baka. Er það virkilega þannig að bóndi sem ætlar út á tún að snúa þurfi til þess sérstaka reglugerðarheimild ráðherra og þarf virkilega að GPS-mæla hringinn á túninu sem bóndinn ekur við bústörfin? Það veldur fólki hugarangri en það hlær líka að þessu. Hvaða vitleysa er þetta?

Því spyr ég nefndina og eins hæstv. ráðherra, sem er viðstaddur umræðuna: Af hverju var ekki farin sú leið sem Landssamtök landeigenda lögðu til, að gerður yrði greinarmunur á umferðarrétti landeigenda og síðan óviðkomandi aðila? Þá gæti það gilt bæði um eignarlönd og þjóðlendur og um akstur óviðkomandi. Ef það var niðurstaða löggjafans, meiri hluta nefndarinnar, að breyta 17. gr. laganna um náttúruvernd, af hverju var það ekki lagt til í sjálfum lagatextanum með afdráttarlausu ákvæði í þá veru að lögin tækju ekki til hefðbundins landbúnaðar og aksturs utan vega vegna nýtingar landeigenda á landsréttindum? Er það vegna þess að það er mat og vilji meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar að taka þann rétt af landeigendunum? Erum við komin út fyrir meðalhófið, eins hv. þm. Einar K. Guðfinnsson spurði í andsvörum við hv. þm. Guðfríði Lilju Grétarsdóttur? Er farið að brjóta á stjórnarskrárvörðum rétti fólks? Fer stjórnsýslan hér offari? Af hverju var ekki hlustað á þessi rök? Af hverju var ekki farið að þessum tillögum til þess að skapa víðtæka sátt um þennan einstaka þátt frumvarpsins, sem ég held að sé víðtæk sátt um í þingsalnum?

Síðan eru nokkur önnur atriði í frumvarpinu og nefndarálitinu sem ég rek augun í og velti fyrir mér af hverju séu þar og hvernig túlka eigi það sem þar kemur fram. Til að mynda spyr Samband íslenskra sveitarfélaga varðandi skilgreiningarkafla frumvarpsins um vegina, af hverju verið sé að blanda Náttúrufræðistofnun inn í ýmislegt sem þar er, af hverju Náttúrufræðistofnun sé gerð að meiri stjórnsýslustofnun þegar samkomulag hafi verið um það fyrir einhverjum árum að hún yrði meiri rannsóknarstofnun og Umhverfisstofnun færi með stjórnsýsluhlutverkið, af hverju farið væri í hina áttina. Á köflum er verið að gera skipulagsvald sveitarfélaganna tortryggilegra og erfiðara en ástæða er til. Er ekki eðlilegt við skilgreiningu á þessum vegum og vegslóðum að það sé á verksviði sveitarfélagsins og hluti af aðalskipulagi þess að merkja inn slóða í stað þess að fela það Landmælingum Íslands og ýmsum ríkisstofnunum?

Viljum við til dæmis setja inn alla veiðislóða, þegar búið verður að gefa út slíkt kort, þannig að hver og einn túristi, innlendur sem erlendur, geti ekið eftir þeim slóðum? Þeir eru oft hluti af túnvegum einstakra jarða og stundum frá einhverju veiðifélagi sem heimilar mjög takmarkaða umferð. Oft er ekið í gegnum skepnuhópa og það þarf að opna og loka hliðum. Viljum við að slíkir slóðar séu settir inn á kort hjá Landmælingum Íslands og að hver og einn geti sagt: Það er almannaréttur minn að keyra þennan veg, það stendur á kortinu? Það hefur gerst, eins og ég nefndi í upphafi, að menn hafa farið eftir meingölluðum kortum sem gefin hafa verið út af einkaaðilum og veifað síðan kortinu þegar þeir voru stöðvaðir. Það eru slóðar sem enginn opinber aðili hefur sett inn, heldur einhverjir einkaaðilar. Viljum við ganga svo langt að þessir slóðar verði settir þarna inn? Ég efast um það og ég held að það sé ekki skynsamlegt.

Varðandi 3. gr. eru ýmis náttúrufyrirbæri sem eiga að njóta sérstakrar verndar tilnefnd í 37. gr. laganna, votlendi er þar til að mynda minnkað úr þremur hekturum niður í einn. Gegn því mæla fjölmargir, meðal annars Samband íslenskra sveitarfélaga, Landssamtök landeigenda sem og Bændasamtök Íslands. Hjá Bændasamtökum Íslands er til að mynda bent á í umsögninni að nýræktun á Íslandi sé mjög lítil og eigi sér fyrst og fremst stað á landi sem þegar hefur verið afmarkað til ræktunar með framræslu af einhverri gerð, það eru kannski einn eða tveir hektarar eftir af mýri sem var eitt sinn mun stærri. Bændur hafa verið hvattir til að draga úr beitarálagi á úthaga og afrétti snemma vors og seint á hausti, sem er skynsamlegt til að leyfa náttúrunni að eflast í þeirri góðu tíð sem verið hefur núna á síðustu árum, og jafnframt þarf fleiri leiðir til að afla aukins fóðurs af ræktarlandi.

Í umsögn þeirra segir:

„Landbúnaður er mikilvæg atvinnugrein sem skapar fjölþætta atvinnu og tryggir fæðuöryggi þjóðarinnar.“

Frjósamasta og besta ræktarlandið er einmitt á vel framræstu mýrarlandi. Bent er á að framræsla þessi geti í sumum tilvikum verið til þess fallin að tryggja velferð dýra sem ganga á landinu, þ.e. að koma í veg fyrir hættur sem þeim eru búnar á ofangreindum svæðum. Allir sem til þekkja vita um dæmi þar sem skepnur hafa farið í pytti í mýrum. Það getur því verið skynsamlegt að ræsa þær fram til að tryggja að dýr drepist þar ekki.

Ég tek alveg undir hugmyndafræðina á bak við það að draga úr framræslu votlendis, sumar litlar mýrar og mýrarflákar eru mjög mikilvæg, en af hverju má það vald ekki vera áfram hjá sveitarfélögunum? Þá yrði sett hverfisvernd á þau svæði, þeim lýst og valdar úr þær mýrar sem ekki á að ræsa fram. Af hverju ætlar löggjafinn að koma að málinu og segja: Nú ætlum við að minnka svæðin úr þremur hekturum niður í einn, og takmarka þar með möguleika mjög margra jarða til að stækka ræktarland um akkúrat þennan eina og hálfa hektara sem til þurfti? Er skynsamlegt að taka allar mýrar til hliðar bara eftir stærð, alveg óháð öðru mati á þeim?

Síðan er það a-liður, um eldvörp, eldhraun, gervigíga og hraunhella, fossa og 200 metra radíus að fossbrún, hveri og birkiskóga. Nú spyr ég: Á þetta við um alla fossa, alla hveri, alla birkiskóga, alla hraunhella óháð stærð, óháð mati á mikilvægi þeirra o.s.frv.? Er skynsamlegt að setja inn í lagatexta að það sé allt þarna inni? Votlendið er þó skilgreint og við getum þá tekist á um hversu stórt votlendið á að vera — en allir hraunhellar, allir fossar? Hvað er foss?

Það kemur líka fram í umsögnum ýmissa umsagnaraðila að þarna vanti skilgreiningu. Hvað er foss? Fer það eftir því hversu mikið vatn rennur úr vatnsfallinu, hvað það er hátt? Er foss með 200 metra radíus, foss sem kemur bara í vorleysingum? Á að vernda það svæði? Það vantar algjörlega skilgreiningu á því. Ég tel að þetta sé allt of víðtækt, það þurfi mun nánari skýringu á því sem fjallað er um.

Í nefndarálitinu fjallar meiri hlutinn um að sú staðreynd sé alþekkt, svo ég vitni til nefndarálitsins, með leyfi forseta:

„… að löggjafarþróun síðustu áratuga hefur einkennst í ríkari mæli af því að öll nánari útfærsla lagasetningarvalds hefur í stórum stíl verið flutt í hendur framkvæmdarvaldsins í formi reglugerðarheimilda eða leyfisveitinga.“

Þetta er sem sagt rammalöggjöf.

Nú spyr ég: Er það góð þróun? Er þetta skynsamlegt?

Fyrir einum eða tveimur áratugum átti að setja rammafjárlög, ég held að það megi kenna það við fyrrverandi fjármálaráðherra Friðrik Sophusson sem kom inn með nýsköpun í ríkisfjármálum. Ég held að það hafi verið skynsamlegt og við tölum um að setja rammafjárlög á vorþinginu vegna næsta árs. En er skynsamlegt að taka hugmyndafræði frá fjárveitingavaldinu og úr fjárlögum og yfirfæra hana á öll önnur lög og segja: Við ætlum að setja rammalöggjöf um allt og svo færum við bara reglugerðarvaldið og allt vald til ráðherranna eða afhendum jafnvel löggjafarvaldið í lögum til einhverra annarra stofnana, undirstofnana ráðherranna. Er það skynsamlegt? Er það góð þróun? Ég efast um að svo sé, þó að meiri hlutinn segi að sú staðreynd sé alþekkt að þróunin sé þessi er hún ekki endilega skynsamleg.

Nú sé ég að tími minn er að verða búinn, frú forseti, þannig að ég enda ræðu mína nú þótt ég hafi ekki lokið við að fara yfir málið, ég tel að hér séu margir þættir sem ræða þarf mun betur og fá frekari svör við áður en við getum afgreitt málið. Ég ítreka beiðni mína til nefndarinnar og hæstv. ráðherra, sem er í salnum, um að taka málið til sín aftur, taka þá þætti sem við erum meira og minna sammála um að laga og ná samstöðu um þá og vera ekki að hreyfa og hræra í öðrum hlutum sem valda hreinlega (Forseti hringir.) ótta um að löggjafarvaldið sé að taka sér óþarfavald.