140. löggjafarþing — 75. fundur,  20. mars 2012.

náttúruvernd.

225. mál
[18:51]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni fyrir andsvarið og vangavelturnar kannski frekar en beina fyrirspurn eða athugasemd. Ég var einmitt að reyna að koma því fram í máli mínu að um leið og ég tel skynsamlegt, eins og til stendur í þinginu, að vinna rammafjárlög og byrja á því áður en menn fara í nákvæmari hluti í lagasetningunni þá tel ég — þrátt fyrir að það komi fram í nefndarálitinu og ég vísaði einmitt til þess og hv. þingmaður gerði það líka að það sé viðurkennt og alþekkt að svoleiðis hafi það verið — að það sé ekki góð þróun, það sé röng þróun, að við séum sem sagt á rangri leið og það sé verið að framselja mikið vald frá Alþingi, frá löggjafanum, yfir til framkvæmdarvaldsins, til ráðherranna.

Það verður bara að segjast eins og er að það þýðir að á hverjum tíma verður það ráðherrann á hverju kjörtímabili sem ræður í raun og veru túlkun á lagatexta. Ég held að það sé nokkuð sem við hérna á þinginu þurfum að staldra við og velta fyrir okkur hvort við getum ekki spornað við. Það er alla vega mín skoðun að þetta sé röng stefna, röng leið. Og þegar við erum komin út í það núna, eins og við ræddum hérna áðan, að það sé háð mati og tillögum Umhverfisstofnunar sem leggur til við ráðherra umhverfismála á hverjum tíma hvernig reglugerð sú verði og hvaða leyfi landeigendur fái til að fara um sín eigin eignarlönd til hefðbundins landbúnaðar, veiða eða hvað það er, uppgræðslu, þá finnst mér hlutirnir vera gengnir of langt og stór spurning hvort það varði við stjórnarskrá. Ég er ósammála því mati sem kemur fram í nefndarálitinu að bótaréttur komi þar aldrei til greina.