140. löggjafarþing — 75. fundur,  20. mars 2012.

náttúruvernd.

225. mál
[18:53]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég hef verið að velta þessu máli fyrir mér á mjög svipuðum nótum og hv. þingmaður hefur gert.

Við sjáum á þessu frumvarpi að gert er ráð fyrir því að settar séu inn og opnað fyrir tilteknar undanþágur frá þeirri meginreglu sem verið er að innleiða. Við vitum að tilefnið er mjög mikill vandi sem að okkur steðjar vegna utanvegaaksturs og er enginn ágreiningur um það að við viljum taka á því og óæskilegum áhrifum hans. En eins og frumvarpið er úr garði gert mun það líka hafa afleiðingar í för með sér fyrir venjulega umferð landeigenda og bænda, alveg eins og hv. þingmaður rakti hér með mörgum ágætum dæmum.

Nú er sem sagt verið að setja inn í þetta frumvarp heimild til ráðherrans til að veita tilteknar undanþágur. Þá vil ég spyrja hv. þingmann hvort hann sé ekki sammála mér um það að skynsamlegra hefði verið, úr því að það er vilji að veita sérstakar undanþágur fyrir landeigendur og bændur til að fara um landið, að setja skýrar undanþágur í lagatextann, þ.e. undanþiggja bændur og landeigendur með tilteknum hætti til að koma í veg fyrir þá tortryggni sem óhjákvæmilega vaknar.

Þó að núverandi hæstv. umhverfisráðherra sé allur af vilja gerður að fara með þetta reglugerðarvald sitt af gætni þá vitum við ekkert hvað framtíðin ber í skauti sér og þegar svo almennar, opnar og víðtækar heimildir eru til staðar er alltaf sú hætta fyrir hendi að þær verði misnotaðar þannig að það komi niður á eignarrétti og eignum bænda og landeigenda. Þetta eru þær áhyggjur sem ég var að viðra, m.a. í andsvari hér áðan og líka með þeim orðum sem ég hef flutt í þessu andsvari.