140. löggjafarþing — 75. fundur,  20. mars 2012.

náttúruvernd.

225. mál
[19:00]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og ég kom inn á í upphafi máls míns láta ekki öll mál mikið yfir sér en eru mun stærri þegar maður fer að skoða þau. Þetta er eitt þeirra og ég sagði í ræðu minni að ég hefði talið að þetta snerist fyrst og fremst um utanvegaakstur, enda var það í fyrirsögn frumvarpsins og hefur verið það gegnumgangandi hér í þinginu, en þegar ég fór að kynna mér það betur voru þar fleiri hundar grafnir, skulum við segja.

Hv. þingmaður hlýtur að hafa verið fjarverandi þegar það var upplýst áðan, eftir að hann hafði orð á því að hann saknaði þess að fulltrúi Framsóknarflokksins í nefndinni væri ekki hér, að hann væri veikur heima með veikt barn og væri þess vegna ekki viðstaddur umræður í dag svo að því sé þá komið á framfæri í annað sinn við hv. þingmann, frú forseti.

Varðandi 37. gr. og votlendið er það alveg rétt, sem kemur fram hjá hv. þingmanni, að núverandi verndaráætlun gagnvart þriggja hektara svæðinu, að það nái til 60% votlendis, en ef menn fara niður í einn hektara eru það 95% — það var einmitt það sem ég var að segja og taka undir umsögn, meðal annars Bændasamtakanna, að sennilega væri það allt of stórt, það væri verið að ná til allt of mikils af votlendinu vegna þess að hluti af því votlendi er eitt besta ræktunarland sem við þurfum til að viðhalda vexti í landbúnaði, til að tryggja fæðuöryggi í landinu, vegna þess að ekki eru allir hektarar af votlendi sama votlendið. Sumt votlendi er mjög mikilvægt að vernda og ég hef bent á að hægt sé að viðhalda því kerfi sem verið hefur, að sveitarfélögin geti í aðalskipulagi sett á það hverfisvernd og viðhaldið því. Það sama má segja að gildi um birkiskógana og ég spurði: Af hverju á að skilgreina það þannig að vernda eigi alla (Forseti hringir.) birkiskóga, óháð stærð og mati fólks á því hversu mikilvægir þeir eru?