140. löggjafarþing — 75. fundur,  20. mars 2012.

náttúruvernd.

225. mál
[19:04]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Mörður Árnason heldur áfram ómaklegri gagnrýni á einstaka þingmenn (Gripið fram í.) og telur að sá sem hér stendur sé ekki til þess bær og verðugur að fjalla um þetta mál þar sem ég hafi hvorki kynnt mér það almennilega og sé aukinheldur á öndverðum pólitískum meiði við þingmanninn. Hann gerir mér upp þær skoðanir að ég vilji bara láta „hipsumhaps“ ráða því hvort einstök votlendi, yfir einn hektara eða einn til þrír hektarar, séu vernduð eður ei, um leið og hann fer síðan að vitna í lagatextann í 37. gr. varðandi birkiskógana, sem ég hef auðvitað lesið og hver og einn Íslendingur sem á að lesa lögin á að skilja lögin.

Þá spyr ég hv. þingmann, ég veit hann getur ekki komið og svarað því núna, hann svarar því þá í ræðu sinni: Hvað er gamalt tré og hver leggur mat á þessa birkiskóga? Þetta hljómar í textanum eins og um sé að ræða alla birkiskóga, allflesta, skulum við segja, sem geta náð til þessa hlutar. Ég bara spurði: Er þetta skynsamlegt? Og mér finnst það rökmæt fyrirspurn.

Varðandi það að þessi sjónarmið hafi hvergi komið fram, og að eðlilegt sé að fulltrúi framsóknarmanna leggi þau fram hér frá Landssamtökum landeigenda og bænda, þá er alveg rétt hjá hv. þingmanni að það er fullkomlega eðlilegt að fulltrúi Framsóknarflokksins geri það. En það kom svo sannarlega fram í umsögnunum sem nefndinni bárust. Það er líka spurning af hverju þeir aðilar sem veittu þær umsagnir fengu þá ekki tækifæri til að koma á fund nefndarinnar og skýra mál sitt.

Hin spurningin er auðvitað mun stærri: Af hverju var ekki hlustað á eitt einasta af þeim atriðum sem þeir lögðu til í umsögnum sínum, (Forseti hringir.) í umfjöllun nefndarinnar, og komið til móts við sjónarmið þeirra?