140. löggjafarþing — 76. fundur,  21. mars 2012.

störf þingsins.

[15:11]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Vegna orða hv. þm. Illuga Gunnarssonar þá er það nýja kannski fyrst og fremst það að til eru upplýsingar um það samráð sem ákvörðunin um kaupþingslánið var grundvölluð á í Seðlabankanum, og það er gott. Eins hitt að lánið endurheimtist að líkindum ekki heldur tapar almenningur umtalsverðum fjárhæðum á þessu. Það er umhugsunarefni að ákvörðunin er tekin í slíkri skyndingu að við veðsetninguna er mönnum ekki ljóst að gangi þeir að veðinu munu lánasamningar fyrirtækisins, sem veðið var tekið í, gjaldfalla og það verða verðlaust sem gerði Seðlabankanum auðvitað nokkuð erfiðara fyrir um að nálgast veðandlagið. En þetta skoðum við málefnalega í rólegheitum í nefndum þingsins. Ég er tilbúinn til að skoða alla þá þætti sem hv. þingmaður nefndi, líka það sem hent hefur í stjórnartíð þessarar ríkisstjórnar enda eigum við ekki að taka þetta á flokkspólitískum forsendum heldur bara rannsaka efni máls.

Varðandi fyrirspurnir hv. þm. Péturs H. Blöndals þá er það mikilvægasta verkefni íslenskra efnahagsmála í dag að ná aftur verðstöðugleika. Verðbólga á Íslandi er of há. Einhver mesta ógn sem að heimilum og fyrirtækjum í landinu steðjar er að sú verðbólga verði viðvarandi, ekki síst vegna þeirra víxlverkana verðtryggingarkerfa alls kyns sem við höfum því miður í okkar samfélagi, og eykur enn á vandann. Það gerir það að verkum að við þurfum sannarlega þjóðarátak ef við ætlum í sameiningu að reyna að halda verðbólgu niðri, en það er algert forgangsmál. Ég tek sömuleiðis undir áhyggjur hv. þingmanns af stöðu sparifjáreigenda og þá ekki síst aldraðra vegna þess að tekjutengingarnar sem leggjast þá ofan á allt annað hafa greinilega orðið til þess að þeir hafa í stórum stíl tekið fé sitt út úr bönkum til að forðast þær.