140. löggjafarþing — 76. fundur,  21. mars 2012.

störf þingsins.

[15:20]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það er áhugavert að heyra hvar áhugi hv. alþingismanna liggur. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að það sé skoðað á vettvangi þingsins hvað gerðist 6. október 2008. Það hefur reyndar verið skoðað eins og greint hefur verið frá. Um það var skrifuð heilmikil skýrsla sem menn hafa ýmsar skoðanir á, eins og hv. þingmenn þekkja, en þar er þetta atriði sem hér er nefnt tekið til sérstakrar skoðunar. Vilji þingið taka það til skoðunar að nýju er ekkert því til fyrirstöðu.

Ég held hins vegar að það væri brýnna fyrir þingið að velta fyrir sér hvað hefur gerst á þeim þremur og hálfu ári sem liðið er frá 6. október 2008. Þar eru ýmsir hlutir sem við gætum þurft að endurskoða, bæði um stefnumörkun og einstakar aðgerðir. Sumt af því kann að kalla á einhverjar rannsóknir, ég vil ekki útiloka það, en aðallega held ég að við á þingi ættum að einbeita okkur að því að komast upp úr hjólförunum, velta fyrir okkur hvernig við getum haldið áfram að byggja upp íslenskt efnahagslíf, hvernig við getum haldið áfram að færa þjóðinni þau lífskjör sem hún á réttmæta kröfu til. Við eigum að skoða það. Við getum skoðað hitt líka, ekkert því til fyrirstöðu. En horfum líka fram á við, hv. þingmenn, veltum líka fyrir okkur hvernig við getum komið atvinnulífinu aftur í gang. Við skulum gera það, hv. þingmenn, og gera það að forgangsefni í umræðum okkar í þinginu.