140. löggjafarþing — 76. fundur,  21. mars 2012.

störf þingsins.

[15:28]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Af einhverjum ástæðum hafa nokkrir stjórnarþingmenn komið í ræðustól og gert að umtalsefni lán Seðlabanka Íslands til Kaupþings 6. október 2008. Bent hefur verið á að ekki hafi verið gerðir lánasamningar sem og að ekki hafi verið staðið rétt að þessari ákvörðun — en hvað skyldi standa eftir af því?

Þegar þetta lán var veitt, þetta 500 milljóna evra lán, sem var veitt til að ganga frá hlutum við breska fjármálaeftirlitið til að minnka mætti áhættuna af Kaupþingi voru vissulega ekki gerðir lánasamningar en menn gleyma að geta þess að það var gefið allsherjarveð í FIH-bankanum og Seðlabanki Íslands gat gengið að því. Einhverjir pappírar hljóta þá að hafa verið á bak við það, menn hljóta að geta verið sammála um það.

Þá er sagt að allir hafi séð fyrir að bankarnir væru farnir á hausinn og spurt af hverju verið væri að lána þetta. Fyrir landsdómi fyrir nokkrum dögum kom fram hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að hann hefði ekki frekar en aðrir stjórnmálamenn trúað því að allir bankarnir færu á hausinn. Í viðskiptanefnd að kvöldi 6. október margspurði Jón Magnússon gesti hvort einhver hætta væri á að þetta 500 milljóna evra lán mundi tapast og öllum gestum bar saman um að svo væri ekki. Þeir sögðu að þetta veð (Forseti hringir.) í FIH-bankanum væri mjög tryggt. Hitt er annað mál að það er rannsóknarefni hvernig staðið var að sölu FIH-bankans, af hverju (Forseti hringir.) öll áhætta af sölunni var sett yfir á seljandann, þ.e. Seðlabanka Íslands, (Forseti hringir.) en kaupandinn þurfti enga áhættu að taka. Það er rannsóknarefni.