140. löggjafarþing — 76. fundur,  21. mars 2012.

störf þingsins.

[15:34]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég tek undir það með hv. síðasta ræðumanni að við skulum rannsaka það sem menn telja að þurfi að rannsaka. Við skulum aðeins athuga það áður en við setjum rannsóknir af stað hvað er búið að rannsaka og hvaða nýju upplýsingar hafa komið fram sem gefa tilefni til nýrra rannsókna. Við skulum gera það, alveg hiklaust, en ég legg enn og aftur áherslu á það sem ég sagði áðan, að við þurfum líka hér í þinginu að setja það í forgang að velta fyrir okkur hvernig við bætum ástandið hér, ekki hvernig menn tóku ákvarðanir fyrir þrem, fjórum árum heldur hvernig við tökum ákvarðanir í dag, hvernig við stuðlum að því að efnahagslíf þessa lands nái sér aftur á strik. Við þurfum að hugsa fyrir því.

Það var annað mál sem ég ætlaði að nefna í þessari umræðu og ég er þakklátur hv. þm. Magnúsi Orra Schram fyrir að víkja að því í ræðu sinni áðan. Ég hélt að þessi hálftími mundi líða án þess að nokkur samfylkingarmaður nefndi Evrópusambandsaðild en hann brást ekki aðdáendum sínum, hv. þm. Magnús Orri Schram. Af því tilefni vil ég minna á ósk sem ég bar fram í umræðum fyrir ábyggilega mánuði, ef ekki fimm eða sex vikum, um að hér í þinginu yrði tekin alvarleg umræða um stöðuna í Evrópusambandsviðræðunum. Bara nýjustu yfirlýsingar út af makríldeilunni gefa tilefni til þess að sú umræða verði tekin, en það eru fjölmargar aðrar forsendur fyrir því. Við þurfum á þessu þingi að taka ítarlega umræðu sem er ekki fólgin í tveggja mínútna fyrirspurnum og svörum eins og verið hefur undanfarna mánuði, við þurfum að taka ítarlega umræðu þar sem menn hafa tíma til að fara yfir stöðuna í þessum viðræðum, hvar við erum stödd á vegi og hvert við viljum halda. Ég held að yfirlýsingar, ekki síst nýlegar yfirlýsingar hæstv. forsætisráðherra og fjármálaráðherra, (Forseti hringir.) gefi ríkt tilefni til þess.