140. löggjafarþing — 76. fundur,  21. mars 2012.

störf þingsins.

[15:36]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það er athyglisvert að þetta gamla mál um lánveitinguna til FIH-bankans er sett á dagskrá þennan morgun og nú er kallað eftir sérstökum rannsóknum. Eins og hér hefur margoft komið fram hafa þær rannsóknir farið fram, meðal annars á vegum rannsóknarnefndar Alþingis, og birtar voru um þær upplýsingar í rannsóknarskýrslunni sjálfri. Það sem liggur þarna fyrir er það að þetta lán var á sínum tíma veitt við mjög þröngar aðstæður, eins og hér hefur verið rakið, gegn veðum sem þá voru talin mjög trygg og voru þá langt innan allra veðmarka sem Seðlabanki Íslands og aðrir seðlabankar settu sér þegar verið var að taka ákvarðanir um lán af þessu taginu.

Það er síðan mikið rannsóknarefni hvers vegna það gerðist að það tókst svo illa til við sölu á þessari eign að þetta veð virðist hafa verið að glatast. Það er hlutur sem við þurfum þá að rannsaka og þá skulum við fara í að rannsaka það. Allt árið 2008 lá Seðlabanki Íslands undir harðri gagnrýni, meðal annars úr þeim ræðustóli sem ég stend nú í, fyrir að vera ekki nógu útbær á fé til bankakerfisins á landinu, vera ekki nógu duglegur að greiða fyrir lánsfjármögnun bankanna, leysa úr lausafjárvanda bankanna. Það var sú gagnrýni sem fór fram á árinu 2008 í garð Seðlabanka Íslands. Seðlabanki Íslands var mjög varkár, hann var mjög íhaldssamur og þess vegna skýtur mjög skökku við að á þessum degi skuli tekin upp umræða sem lýtur að því að gagnrýna Seðlabankann fyrir að hafa veitt lán til tiltekins banka gegn miklum og góðum tryggingum á þeim tíma og var þess vegna alls ekki neitt óeðlileg.

Það sem er verið að gera er að dreifa athyglinni frá því að hér urðu stór tíðindi á vettvangi Seðlabanka Íslands í morgun sem var vaxtahækkunin sem er auðvitað áfellisdómur yfir efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar og sýnir okkur svart á hvítu að ríkisstjórnin hefur (Forseti hringir.) ekki í þessu máli nokkra stjórn á atburðarásinni eða því verkefni sem henni hefur verið trúað fyrir.