140. löggjafarþing — 76. fundur,  21. mars 2012.

Farsýslan, stjórnsýslustofnun samgöngumála.

272. mál
[15:46]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég skildi ekki alveg síðustu setninguna í ræðu hv. formanns umhverfis- og samgöngunefndar.

Ég lít svo á að við séum að vinna hér að ákveðnu verkefni, breytingum og hagræðingu á þessu sviði. Við fulltrúar minni hlutans í umhverfis- og samgöngunefnd lögðumst gegn frumvarpinu í 2. umr., bæði þessu og frumvarpinu um Vegagerðina sem er hér líka á dagskrá, á þeirri forsendu að við töldum að hugmyndir um hagræðingu og sparnað sem frumvörpin byggja á væru ekki nægilega rökstuddar og traustar.

Ég fagna því að við fáum tækifæri til að fjalla aftur um málin tvö sem fylgjast að í nefnd milli umræðna. Í ljósi þess að við treystum því að við fáum frekari upplýsingar og jafnvel að einhverjar breytingar verði á málunum á því stigi mun ég og að ég hygg flokksfélagar mínir sitja hjá við þessa atkvæðagreiðslu. Við drögum jafnframt til baka (Forseti hringir.) frávísunartillögu okkar til 3. umr.