140. löggjafarþing — 76. fundur,  21. mars 2012.

afbrigði um dagskrármál.

[16:03]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér erum við að greiða atkvæði um það hvort setja eigi á dagskrá í dag þingsályktunartillögu og gefa henni rýmri tíma en ella til að ræða hér í þessum þingsal. Ég er fylgjandi því. Kannski snýst þessi spurning í raun og veru um: Treystum við okkur til þess að eiga samtal við þjóðina um mótun nýrrar stjórnarskrár? Menn koma til með að greiða atkvæði um það hér og nú og svo síðar í þessu ferli.

Menn tala oft um það að ásarnir í pólitík séu ekki lengur hægri og vinstri. Þeir snúast frekar um: Viljum við eiga opið samtal eða viljum við gera þetta bak við luktar dyr? (Gripið fram í.) Viljum við sækja fram og gera umbætur eða viljum við standa vörð um það gamla? Erum við í raun og veru umbótasinnuð eða erum við varðstöðuafl? Kannski kristallast það hér í þessari atkvæðagreiðslu. (Gripið fram í: Nei.) (Gripið fram í: … málið á dagskrá?)