140. löggjafarþing — 76. fundur,  21. mars 2012.

skipan ferðamála.

623. mál
[16:24]
Horfa

fjármálaráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spyr hvort gerðar hafi verið sérstakar athugasemdir við gjaldtökuna. Ég fór ekki yfir þær athugasemdir sjálf, hafi þær komið til ráðuneytisins. Það má þó vera að þær séu þar og mér þætti ekki ólíklegt að þeir sem þurfa að greiða gjaldið geri við það athugasemdir þegar hækkunin er slík. Hins vegar ber þess að geta að gjaldið hefur ekki verið hækkað síðan árið 2005 þannig að þeir sem hafa greitt gjaldið hafa notið ákveðins afsláttar, ef svo mætti segja, þar sem gjaldið hefur ekki verið fært upp miðað við verðlag.

Gjaldið miðast við að það nái yfir þann kostnað sem fylgir leyfisveitingunni, að fara yfir umsóknir og við leiðbeiningu og gerð öryggisáætlana. Gert er ráð fyrir að þetta standi undir rekstrarkostnaði hjá Ferðamálastofu vegna afgreiðslu á 300 leyfisumsóknum og öryggisáætlunum eins og fram kemur í skýringum með frumvarpinu og kom fram í máli mínu áðan.

Ég vona að ég hafi svarað spurningu hv. þingmanns með þessu.