140. löggjafarþing — 76. fundur,  21. mars 2012.

skipan ferðamála.

623. mál
[16:27]
Horfa

fjármálaráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vænti þess að hv. atvinnuveganefnd fari yfir gjaldtökuna eins og önnur atriði í þessu frumvarpi. Ferðamál landsins eru ört vaxandi málaflokkur og með þessu frumvarpi og auk þess með allri umgjörð í kringum ferðamálin er verið að auka aðhald og gera frekari og ríkari kröfur til þeirra sem selja þjónustu á þessu sviði. Þess er líka krafist að þar sé aukin fagmennska á ferðinni og að þeir sem kaupa þjónustuna geti verið vissir um að sá sem veitir hana hafi uppfyllt ákveðin skilyrði og að öryggis sé gætt eins og hægt er.

Ég ítreka að þessi gjöld hafa ekki hækkað frá árinu 2005 og það er augljóst, ef við lítum bara á verðlagsþróun á þessu sjö ára tímabili, að til þess að þau geti staðið undir kostnaðinum við þjónustuna sem ætlast er til þarf að hækka þau. Auðvitað mun hv. atvinnuveganefnd fara yfir öll þessi atriði en vitaskuld skoða í hvaða ljósi gjaldtakan er hækkuð.