140. löggjafarþing — 76. fundur,  21. mars 2012.

meðferð sakamála.

622. mál
[16:35]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að bera það upp við hæstv. ráðherra hvort hann telji ekki hafa komið til álita vegna þess vanda sem lýst er í frumvarpinu, og hann kom hér að, að ganga lengra en gert er með þessu frumvarpi. Ég spyr í því sambandi hvort hreinlega hafi verið skoðað að banna starfsemi þeirra félaga sem sannarlega eru í öllum öðrum löndum talin glæpasamtök. Við höfum gert ráð fyrir því í íslenskum lögum að starfsemi tiltekinna félaga kynni að vera bönnuð. Til eru reglur um það með hvaða hætti við mundum bera okkur að við slíkt. Þar sem helst hafa blasað við okkur að undanförnu glæpasamtök sem eru tiltölulega nýkomin til Íslands og ganga fram undir merkjum félagasamtaka sinna hlýtur það að hafa komið til skoðunar hvort það væri ekki markviss, einföld og áhrifarík leið að banna slíka starfsemi. Í því sambandi er nærtækt að líta til þess að ógnin sem viðkomandi félagsmenn láta í skína birtist ekki síst í merkjum félagsins sem þeir bera utan á sér. Þetta vildi ég bera upp við ráðherrann í framhaldi af þessari framsögu.