140. löggjafarþing — 76. fundur,  21. mars 2012.

meðferð sakamála.

622. mál
[16:45]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg skýrt af minni hálfu að ég vil ekki ganga eins langt og aðrar Norðurlandaþjóðir hafa gert í þessum efnum. Ég hef heimsótt þessar leyniþjónustur. Ég hef kynnt mér eftirlitshlutverk þingsins og annarra sem koma að þessum málum og ég er ekki sannfærður um að það sé til góðs eða nokkuð sem ég er tilbúinn að skrifa upp á. Þá er það umræða sem við þurfum að taka hér og vera ósammála um málið eftir atvikum. Ég hefði talið að meiri ástæða væri til að einblína á það sem sameinar okkur, það sem við getum orðið sammála um.

Þá skal ég svara spurningu hv. þingmanns: Já, ég vil að framhald verði á því átaki sem við gerðum. Ég hef heyrt þann tón í allsherjarnefnd þingsins líka hvað það varðar, m.a. frá hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur og formanni nefndarinnar, Björgvin G. Sigurðssyni, sem hefur rætt það sérstaklega við mig undanfarna daga að hann vilji taka tillögu þessa efnis inn í allsherjarnefnd og hún fylki sér um hana.