140. löggjafarþing — 76. fundur,  21. mars 2012.

meðferð sakamála.

622. mál
[17:12]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Virðulegur forseti. Ég vil hefja mál mitt á því að vekja athygli á því að í þessu mikilvæga máli hæstv. innanríkisráðherra er hann ekki viðstaddur umræðuna í salnum. Það tel ég til hins verra því að í þessu frumvarpi er þó verið að stíga mjög hófsamt skref. Það var greinilegt á ræðuhöldum annarra þingmanna og í umræðu meðal þingmanna að áhugi er á því að taka þetta mál miklu, miklu lengra og það er mjög mikilvægt að ráðherrann heyri þau orðaskipti. — Þarna kemur hæstv. ráðherra í gættina og það er gott að vita af því.

Mig langar að byrja á að nefna það sem ég sagði áðan að hér er um hófsamt frumvarp að ræða miðað við það sem sumir bjuggust við og margir hafa talað fyrir því að fara miklu lengra með þetta mál. Með þessari breytingu er verið að stíga ákveðið skref og heimila að fara megi af stað með rannsóknir þegar grunur leikur á að verið sé að undirbúa brot þó svo að refsirammi þess sé fjögur ár en ekki átta ár, og lækka þannig þröskuldinn.

Ég hef skoðað þetta mál í hörgul og lýst eftir því hvað menn hafa fyrir sér í því að svona heimild muni duga. Með því að ræða á þeim nótum um samtök vélhjólamanna almennt eins og gert er, er verið að draga alla vélhjólamenn á landinu í sama dilk og í rauninni brennimerkja þá sem einhvers konar glæpamenn. Það er ekki við hæfi því að langstærstur hluti allra áhugamanna um vélhjól er gagnmerkt og heiðarlegt fólk sem hefur einfaldlega ánægju af sínum hjólatúrum. Það að tala í þessu máli eins og gert hefur verið um vélhjólasamtök, að þau séu af hinu illa, er vond nálgun.

Mig langar að vísa til þeirrar leiðar sem ég nefndi áðan í andsvari við hæstv. ráðherra og kemur fram með pósitífum hætti í 74. gr. stjórnarskrár okkar, en þar segir í 1. mgr.:

„[…] Banna má þó um sinn starfsemi félags sem er talið hafa ólöglegan tilgang, en höfða verður þá án ástæðulausrar tafar mál gegn því til að fá því slitið með dómi.“

Slík aðferð mundi gera það að verkum að starfsemi félaga með ólöglegan tilgang, það kemur skýrt fram, ólöglegan tilgang, yrðu bönnuð. Þar með yrði sú brennimerking sem flust hefur yfir á alla vélhjólamenn landsins afmáð og eingöngu þau félög sem menn teldu að hefðu vafasaman tilgang yrðu bönnuð. Þannig er líka hægt að uppræta málið í fæðingu og koma í veg fyrir að þessi samtök festi rætur og það er markmiðið því ekki viljum við hafa slík glæpagengi hér á landi.

Í nágrannalöndum okkar þar sem menn hafa farið þá leið að útvíkka mjög heimildir lögreglu til rannsókna, til dæmis með hlerunum án dómsúrskurða og öðrum leiðum sem sumir þingmenn hafa talað fyrir að verði farnar hér, hefur algjörlega mistekist að stemma stigu við þessum samtökum. Það hefur ekki tekist að uppræta þau og ekki hefur tekist að stöðva vöxt þeirra. Við vitum kannski ekki allt um þessi mál en við vitum þó að þær aðferðir sem hafa verið reyndar í nágrannalöndunum sem hafa verið aðrar en blátt bann við starfsemi félaganna hafa ekki virkað. Allsherjar- og menntamálanefnd hlýtur samt að kalla eftir ítarlegri upplýsingum um þetta mál þegar sú nefnd fer yfir það.

Herra forseti. Eins og ég hef heyrt suma þingmenn tala undanfarna daga um glæpasamtök á Íslandi virðist mér að ýmsir þeirra séu að kalla eftir mjög víðtækum heimildum til lögreglu til rannsókna á meintum brotum án dómsúrskurða og er mjög varasamt að fara þá leið. Lögregluríki eru með ýmsu móti og sagan sýnir okkur að þau hegða sér misjafnlega og ná fram markmiðum sínum með misjöfnum hætti. Það sem við verðum hins vegar að gera er að láta söguna vísa okkur veginn í þessu máli og sú leið sem farin hefur verið víða að auka mjög víðtækar heimildir lögreglu hefur einfaldlega oft á tíðum leitt til hörmungaraðstæðna.

Ef einstök samtök eru bönnuð en ekki er farið út í almennar lagabreytingar sem hafa það að markmiði að koma í veg fyrir að samtök tengd vélhjólum séu undir grun, kemur náttúrlega í ljós fyrr eða síðar um hvaða samtök er að ræða og hvernig þau haga sér og hvers vegna þau eru bönnuð, og það gerir mönnum kleift að skilja þar á milli. Það er mjög mikilvægt.

Mig langar líka að vekja athygli á því að ástæðan fyrir því að farið er af stað með þetta frumvarp og ástæðan fyrir því að fjölmargir þingmenn kalla eftir miklu, miklu harðari og betur útfærðari heimildum til lögreglunnar er meðal annars sú að skipulögð glæpasamtök hafa lifibrauð sitt af dreifingu og sölu ólöglegra fíkniefna og jafnvel framleiðslu þeirra. Eftir því sem mér skilst eru ólögleg fíkniefni framleidd á Íslandi í síauknum mæli og aðrir glæpir tengjast þeim líka. En það er eitt sem við vitum líka um ólöglegu fíkniefnin og það er að þrátt fyrir hvað við höfum mikinn ímugust á þeim og hvað þau valda miklu samfélagslegu tjóni hefur baráttan gegn ólöglegum fíkniefnum undanfarin 40 ár algjörlega mistekist. Hún hefur mistekist hjá öllum þeim sem hafa tekið þátt í henni.

Í því sambandi langar mig að vísa til skýrslu sem nýlega er komin út. Hún hefur enn ekki verið þýdd á íslensku en er eitt mikilvægasta innleggið í umræðuna um ólögleg fíkniefni og glæpi af völdum þeirra. Skýrsla þessi kom út í júní í fyrrasumar á vegum nefndar Sameinuðu þjóðanna og heitir einfaldlega á ensku, með leyfi forseti, War on Drugs. Það eru engar smákanónur sem skrifa þessa skýrslu. Nafnaskráin, með leyfi forseta, er sem hér segir en þó eingöngu að hluta:

Carlos Fuentes, rithöfundur og fræðimaður frá Mexíkó, César Gaviria, fyrrum forseti Kólumbíu, stærsta kókaínframleiðslulands heims, Georg P. Shultz, fyrrum utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Javier Solana, fyrrum aðalfulltrúi Evrópusambandsins, Kofi Annan, fyrrum aðalritari Sameinuðu þjóðanna, Mario Vargas Llosa, rithöfundur og fræðimaður frá Perú, Paul Volcker, fyrrverandi aðalbankastjóri Seðlabanka Bandaríkjanna, Richard Branson, viðskiptajöfur og félagsmálatröll í Bretlandi, og Thorvald Stoltenberg, fyrrum utanríkisráðherra Noregs, svo að eingöngu nokkrir séu nefndir.

Niðurstaða skýrslu þessara manna er eftirfarandi, en með leyfi forseti, þar sem skýrslan hefur ekki enn þá verið þýdd á íslensku sem er þingmálið, leyfi ég mér að lesa hér tvær málsgreinar úr niðurstöðu skýrslunnar. Þar segir orðrétt:

„The global war on drugs has failed, with devastating consequences for individuals and societies around the world. […]

Vast expenditures on criminalizations and repressive measures directed at producers, traffickers and consumers of illegal drugs have clearly failed to effectively curtail supply or consumption.“

Herra forseti. Þetta eru mjög hörð orð sem menn hafa hér uppi eftir 40 ára baráttu gegn eiturlyfjum. Þessi skýrsla sýnir mjög skýrt fram á að þessi mál þarf að hugsa upp á nýtt. Ólögleg fíkniefni eru undirstaðan undir starfsemi ólöglegra glæpasamtaka sem frumvarpi hæstv. innanríkisráðherra er meðal annars ætlað að taka á. Það hlýtur að vera einboðið að Alþingi eða innanríkisráðuneytið láti þýða þessa skýrslu yfir á íslensku, hún er ekki nema 24 blaðsíður en er uppfull af upplýsingum um stöðu þessara mála eftir áratuga baráttu, meðal annars Bandaríkjamanna sem hafa notað til þess allt sitt lögreglulið, alríkislögregluna, leyniþjónustur sínar og her sinn í baráttu gegn ólöglegum fíkniefnum. Hér kemur einfaldlega skýrt fram að sú barátta hefur engu skilað.

Ég legg líka til, virðulegi forseti, að við ræðum þessi mál í stærra samhengi, við látum ekki stjórnast af tíðaranda sem mér heyrist og sýnist vera frekar hysterískur og afstaða manna virðist, að mér sýnist, ekki síður taka mið af þeirri íslensku hollywoodmynd sem heitir Svartur á leik og hefur verið notuð til rökstuðnings meðal annars um þetta mál. Þannig megum við ekki afgreiða svona mikilvæg skref hvað varðar útvíkkanir heimilda til íslenskrar lögreglu. Það þarf að gera með yfirveguðum hætti og vandlega og það þarf að krefjast þess að sýnt verði fram á að allar auknar heimildir til lögreglu í nágrannalöndunum hafi skilað árangri. Ég er ansi hræddur um að tölfræðin þaðan sýni að svo sé ekki og þess vegna legg ég enn og aftur áherslu á að frekar verði skoðað eða jafnframt skoðað hvaða árangur það hefur borið fyrir sambandsríki Þýskalands og Kanada sem hafa farið þá leið að banna einstaka félagasamtök, og hvort það sé hugsanlega vænlegri leið fyrir okkur Íslendingar að fara.