140. löggjafarþing — 76. fundur,  21. mars 2012.

meðferð sakamála.

622. mál
[17:24]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008, með síðari breytingum, sem tekur til aukinna rannsóknarheimilda lögreglu.

Það er alveg ljóst að menn munu ekki verða sammála um auknar rannsóknarheimildir lögreglu, sem er undirtitill frumvarpsins og sem sumir vilja kalla forvirkar rannsóknir. Í samfélagi okkar finnst okkur sjálfsagt sérkennilegt að þurfa að auka rannsóknarheimildir lögreglu. Ég sit í allsherjarnefnd og eftir að hafa hlustað á rannsóknarlögreglu, lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins og lögreglumenn fjalla um birtingarmyndir skipulagðrar glæpastarfsemi á Íslandi tel ég að við þurfum að skoða það mál frekar.

Auknar heimildir í þessa veru er ekki hægt að veita nema ríkir almannahagsmunir liggi við. Gangi það eftir að lögregla fái auknar rannsóknarheimildir þurfum við líka ríkara eftirlit og við þurfum að taka tillit til þess sem heitir á okkar tungu persónuvernd. Við vitum að skipulögð glæpastarfsemi grefur undan grundvallarmannréttindum fólks, að gegn henni þarf að berjast með öllum tiltækum ráðum og öllum tiltækum rannsóknarúrræðum.

Okkur finnst að Ísland sé svo lítið land og að skipulögð glæpastarfsemi sé fjarri samfélagi okkar, en svo er ekki. Við sjáum birtingarmyndir skipulagðrar glæpastarfsemi í mörgu. Við sjáum hana í auknum vopna búnaði einstaklinga, hvort heldur það eru hnífar, sveðjur, kylfur eða önnur tól, við sjáum þær í hótunum, handrukkurum og í ýmsum líkamsmeiðingum og okkur hefur verið bent á að hluti birtingarmyndar skipulagðar glæpastarfsemi sé skipulagt betl, götuvændi, mansal og vasaþjófnaður. Það er þekkt á Norðurlöndum og á meginlandi Evrópu þar sem fólk getur farið á milli landa með auðveldari hætti en hér á landi, en hvort sem okkur líkar það betur eða verr hefur borið á skipulögðu betli og vasaþjófnaði erlendra manna sem komið hafa hingað til lands.

Maður gæti ætlað að vegna þess að Ísland er eyja ætti það að vera auðveldara fyrir okkur að hefta aðkomu slíkra manna inn í landið, verið með landamæraeftirlit, stífara vegabréfaeftirlit o.s.frv. Margir hafa séð Schengen-samstarfinu ýmislegt til foráttu í því að við getum ekki haft virkara eftirlit með þeim sem koma til landsins, en það ber að geta þess að samkvæmt EES-samningi er frjálst flæði fólks inn í landið og gegn því dugar hvorki Schengen né neitt annað. Það sem við græðum hins vegar á Schengen-samstarfinu er að við höfum þá aðgang að ýmsum gögnum varðandi ýmsa glæpahópa og glæpamenn sem aðrir hafa ekki sem ekki eru aðilar að þeim samstarfssamningi, þó svo að velta megi fyrir sér hvort við eigum að halda í Schengen-samstarfið sem slíkt. Ég ætla ekki að leggja mat á það í þessari ræðu.

Í hv. allsherjar- og menntamálanefnd er til umsagnar og vinnslu frumvarp um kynferðisafbrot gagnvart börnum. Þar er verið að þrengja refsirammann allhressilega í þá veru að undirbúningur glæpsins verður saknæmur nái frumvarpið fram að ganga, sem ekki var áður. Varsla á klámefni tengdu börnum verður refsivert ef frumvarpið nær fram að ganga en er það ekki núna. Við erum því að færa okkur inn á þá braut að undirbúningur að glæp sé refsiverður og að þessar forvirku rannsóknir eigi að koma í veg fyrir að glæpurinn verði framinn. Til þess að það sé mögulegt telur lögreglan að hún þurfi með einum eða öðrum hætti víðtækari heimildir til þess en hún hefur nú.

Menn hafa rætt um það sem tíðkast í Noregi og í Danmörku þar sem er sérstök öryggislögregla, sumir kalla það leynilögreglu, mér er eiginlega sama hvort heldur menn nota ef sú starfsemi sem þar fer fram virkar þannig fyrir íbúa landsins að þeir eru öruggari í heimaborg sinni eða heimabæ og í sínu eigin landi. Ef það kallar á að það að breyta þurfi embætti ríkissaksóknara með einhverjum hætti til að vista sérstaka deild fyrir þá starfsemi þar inni — það er skoðun mín að þannig þurfi það að vera, að það þurfi að vera verulegir múrar á milli þeirra sem sinna hinni almennu löggæslu og hinna sem fá jafnvíðtækar heimildir og rætt er um hér. Slíkt getur aldrei átt við um alla þá sem sinna almennum lögreglustörfum í landinu, með fullri virðingu fyrir því ágæta fólki sem það gerir, í þessu litla samfélagi okkar. Þar þarf að þrengja aðkomu þeirra sem sinna slíku verki, það er nokkuð ljóst.

Heyrst hefur að hæstv. innanríkisráðherra vilji ekki ganga lengra en hann gerir í því frumvarpi sem hann leggur fram. Hv. allsherjar- og menntamálanefnd verður þá að fara yfir og skoða hvort ástæða sé til að ganga lengra og skoða hvernig hlutirnir hafa gengið fyrir sig annars staðar. Áðan var rætt um hvort hugsanlega ætti að banna ákveðin samtök sem eru af mörgum talin glæpasamtök, að þannig væri frekar hægt að koma í veg fyrir að þau samtök störfuðu með þeim hætti sem þau gera vítt og breitt um heiminn. En það er til annars konar skipulögð glæpastarfsemi og aðrir glæpamenn en þeir sem þekkist af merkjum eða klæðnaði sínum. Það eru bara ósköp venjulegar konur og venjulegir menn — kannski ekki venjulegir nema útlitslega séð — sem stýra glæpasamtökum, svokölluðum mafíum. Það fólk er kannski ekki svo áberandi vegna útlits síns. Hvernig ætlum við að ná til þeirrar skipulögðu glæpastarfsemi, vegna þess að hún er síst skárri en hin? Útlitið eitt og sér blekkir stundum og við getum sagt sem svo að oft er flagð undir fögru skinni því að það eru ekki allir glæpamenn ógnvekjandi í útliti og ber að varast þá ekki síður en hina sem hafa uppi hótanir og eru ógnandi og sýna það bæði með framkomu og klæðnaði.

Eftir að hafa hlustað á lögreglu fara yfir ýmis mál sem snúa að henni, þau verkefnum sem hún vinnur að og það sem er að gerast í íslensku samfélagi verð ég að viðurkenna að andvaraleysi mitt gagnvart þessum málum var algert. Ekki hvarflaði að mér að margt af því sem maður hefur heyrt um væri í raun og veru fyrir hendi hér á landi. Það er þó ekki alltaf sýnilegt hinum venjulega manni frá degi til dags. Það er kannski ágætt að við verðum ögn meðvitaðri um að þetta litla land okkar er ekki óhult fyrir ýmissi óáran.

Virðulegur forseti. Ég mun sem fulltrúi í allsherjarnefnd hlusta eftir því sem þeir umsagnaraðilar sem verða væntanlega kallaðir fyrir nefndina, hvort heldur það verður refsiréttarnefnd eða réttarfarsnefnd, fulltrúar lögreglu eða aðrir — það er líka alveg ljóst að ýmsir óttast að auknar heimildir lögreglu til forvirkra rannsóknarheimilda verði með misnotaðar einhverjum hætti gagnvart þeim sem eiga það ekki á nokkurn hátt skilið að vera skoðaðir sérstaklega. Pólitískir öfgahópar, á hvorn vænginn sem eru, gætu þurft að sæta rannsókn af því tagi. Það kann að vera að nauðsyn krefjist þess að slíkt sé gert. En óttinn við auknar heimildir, um að lögreglan fari út fyrir verksvið sitt, kallar ekki bara ríkara eftirlit heldur verða ríkir almannahagsmunir alltaf að vera fyrir hendi, það þarf að vera á hreinu, til að hægt sé að rjúfa persónuvernd einstaklinga með þessum hætti.

Virðulegur forseti. Skipulögð glæpastarfsemi fyrirfinnst að því er virðist jafnt í hópi hvítflibba sem og annarra á Íslandi. Við þurfum að ná tökum á slíku með einhverjum hætti. Það verður verkefni allsherjarnefndar að fara yfir frumvarp hæstv. ráðherra, eins og ég sagði áðan, skoða það ofan í kjölinn, kalla eftir hugmyndum annars staðar frá, fá að vita hvernig hlutirnir ganga fyrir sig á hinum Norðurlöndunum og í Kanada og hugsanlega í Þýskalandi. Við þurfum að vita hvað við getum gert til þess að tryggja öryggi íbúa þessa lands, ákveðin grundvallarmannréttindi, að við getum búið hér án þess að þurfa að sæta ógn, hótunum, líkamsmeiðingum eða þess háttar af hálfu þeirra sem stunda skipulagða glæpastarfsemi.