140. löggjafarþing — 76. fundur,  21. mars 2012.

meðferð sakamála.

622. mál
[17:47]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Magnúsi Norðdahl fyrir svarið. Mig langar að spyrja hann að öðru. Þegar ég talaði hér áðan ræddi ég annars vegar um ríkt eftirlit, ríka almannahagsmuni, en fór líka inn á persónuvernd. Nú er það okkur hér og mörgum, kannski flestum, dýrmætt að eiga og halda utan um friðhelgi einkalífs. Telur hv. þingmaður, sem þekkir lögin ágætlega, að það að veita lögreglu ríkulegar heimildir til forvirkra rannsókna geti hugsanlega kallað á að löggjafinn þurfi með einum eða öðrum hætti að fara inn í lög um persónuvernd og breyta þar ákvæðum eða setja inn ákvæði sem í raun draga úr friðhelgi einkalífs þeirra sem grunaðir eru um glæpastarfsemi af einhverju tagi? Og þá hvort það er mögulegt, og ef það er ekki gert, er þá hugsanlega hægt að fara í það karp að lög um forvirkar rannsóknarheimildir stangist á við lög um persónuvernd og það geti til dæmis ónýtt rannsóknir eða ónýtt dómsmál eða eitthvað í þá veru, ef ekki er gætt að persónuverndarlögunum samhliða því að lögreglan fær slíkar rannsóknarheimildir?