140. löggjafarþing — 76. fundur,  21. mars 2012.

meðferð sakamála.

622. mál
[17:50]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi ræðu minnar nefna það að ég hef á margan hátt verið afskaplega ánægður með hæstv. innanríkisráðherra í sambandi við þennan málaflokk. Ég held að hæstv. innanríkisráðherra hafi með margvíslegum ummælum sínum og yfirlýsingum látið í ljósi þá skoðun sem ég hygg að sé ríkjandi innan þingsins að ekki sé þolinmæði gagnvart starfsemi skipulagðra glæpahópa í landinu. Ég held að einmitt hótanir og jafnvel málsóknir gegn hæstv. ráðherra og einstökum embættismönnum sýni það að þeir hafa skilið skilaboðin sem áttu að fá þau. Ég held að það sé alveg ótvírætt.

Varðandi það frumvarp sem liggur fyrir verð ég þó að segja, þrátt fyrir eins og ég segi að ég hafi á margan hátt verið ánægður með hæstv. innanríkisráðherra í þessum efnum, að mér finnst frumvarpið fullvarfærið. Ég hef skilning á því að hæstv. innanríkisráðherra vilji taka varfærin skref í sambandi við löggjöf á þessu sviði, sérstaklega að því er varðar þær heimildir sem geta með einum eða öðrum hætti snert persónuverndarsjónarmið eða skert persónuvernd með einhverjum hætti. Það er virðingarvert og gott að hæstv. innanríkisráðherra hafi slík sjónarmið í huga og ég hef skilning á því.

Ég var í þeim sporum fyrir nokkrum árum að vera hér sem formaður allsherjarnefndar að fjalla um breytingar á sakamálalöggjöfinni, töluvert víðtækar breytingar, og nokkur af þeim atriðum sem þetta mál snertir komu til umræðu í því sambandi. Segja má að að einhverju leyti hafi verið stigið skref í þeim efnum sem juku heimildir þeirra sem rannsaka sakamál, en samt sem áður höfðum við varfærnissjónarmiðin líka í huga þegar við mótuðum þær reglur sem þá voru til umfjöllunar. Við lýstum því hins vegar yfir, alla vega þeir sem skipuðu þá meiri hluta hv. allsherjarnefndar, að við teldum að huga þyrfti áfram að ákveðnum þáttum eins og gert er í þessu frumvarpi, þ.e. forvirkum rannsóknarheimildum lögreglu, óhefðbundnum rannsóknarúrræðum og fleiri atriðum sem kölluð hafa verið slíkum nöfnum.

Í því skyni hefur verið flutt hér tillaga til þingsályktunar, 1. flutningsmaður er hv. þm. Siv Friðleifsdóttir og ég er meðal flutningsmanna að því máli ásamt nokkrum þingmönnum Samfylkingar, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Tillagan var lögð fram síðasta í haust og er eftir því sem ég best veit í meðferð enn þá í allsherjarnefnd. Má segja að það opna orðalag sem sú tillaga felur í sér leiði til þess, verði hún samþykkt, að innanríkisráðherra verði falið að gera heimildir lögreglu á þessu sviði sambærilegar og í öðrum norrænum ríkjum, bæði til að rannsaka og grípa til fyrirbyggjandi aðgerða með tilliti til skipulagðrar glæpastarfsemi.

Ég held að ekki sé um það deilt að tillagan gengur að þessu leytinu lengra en frumvarp hæstv. innanríkisráðherra sem við höfum hér til umfjöllunar. Segja má að frumvarpið feli í sér ákveðna viðleitni í þessa átt en við hljótum þó að hlusta eftir því, þingmenn sem fjöllum um þetta mál, að af hálfu lögreglunnar hafa komið fram sjónarmið um að ekki sé nægilega langt gengið í þessum efnum. Það sem fram hefur komið í fjölmiðlum undanfarna daga um viðbrögð lögreglumanna og stjórnenda í lögreglunni við frumvarpinu er að þeir telja að það sé fullvarfærið og ég held að full ástæða sé fyrir okkur í þinginu þegar við fjöllum um þetta mál að taka tillit til þess.

Við vitum náttúrlega við hvaða viðfangsefni við viljum fyrst og fremst glíma að þessu leyti. Við höfum auðvitað fyrst og fremst áhyggjur af vaxandi glæpastarfsemi í skipulögðu formi, skipulagðara formi með meiri alþjóðleg tengsl en við höfum séð áður. Ég held að enginn vafi leiki á því að glæpastarfsemi af því tagi hefur farið vaxandi og er orðin meira áberandi í íslensku þjóðlífi og er farin að valda meiri skaða en áður. Vélhjólagengi hafa verið nefnd en eru þau ekki eina birtingarmynd skipulagðrar glæpastarfsemi. Í fjölmiðlum hafa verið rakin dæmi bæði um alíslenska og alþjóðlega hópa, glæpamannahópa, sem ekki falla undir skilgreininguna vélhjólagengi og eins hefur með auknum alþjóðlegum tengslum og frjálsari för fólks milli landa gætt hér meiri glæpastarfsemi sem rætur á að rekja til annarra landa. Það er ekkert séríslenskt fyrirbrigði en þetta er vaxandi vandamál alls staðar í heimshluta okkar. Rannsóknir lögreglu hafa á undanförnum árum hvað eftir annað sýnt að hér er um vaxandi vandamál að ræða. Þetta er auðvitað það sem við erum fyrst og fremst að glíma við og það eru vandamál af þessu tagi sem er okkur efst í huga þegar við veltum fyrir okkur auknum heimildum lögreglu á þessu sviði.

Ég er þeirrar skoðunar að bæði löggjafarvaldið og handhafar framkvæmdarvalds á þessu sviði verði að grípa til margvíslegra aðgerða til að takast á við þessi vandamál. Hinar forvirku rannsóknarheimildir, sem svo eru nefndar, eru einn þáttur í því. Annar þáttur er sú hugmynd sem hefur verið nefnd í þessari umræðu að tiltekin samtök sem talin eru, og vitað er skulum við segja, starfa í ólögmætum tilgangi verði einfaldlega bönnuð, gripið verði til aðgerða af því tagi. Þriðja atriðið er það sem lýtur að því að lögreglu sé ekki bara með lagaheimildum heldur líka með fjármunum gert kleift að rækja hlutverk sitt vel. Ég hef áður í þessum sal margoft lýst yfir áhyggjum af því að fjárveitingar til lögreglunnar séu ekki nægar og geri henni ekki kleift að sinna þessum málum með þeim hætti sem þyrfti að vera.

Nú vitum við að á síðasta ári voru sérstakar fjárveitingar til þess að setja upp rannsóknarteymi til að berjast við skipulagða glæpastarfsemi og eftir því sem ég best veit eru þær heimildir að klárast þannig að þá þarf með einhverjum hætti að tryggja framhald þeirra. Og ég vil nota þetta tækifæri til að lýsa þeirri skoðun við hæstv. innanríkisráðherra að hann hafi forgöngu um það að lögregluyfirvöldum verði tryggt fjármagn til að hægt verði að halda uppi þeirri starfsemi og efla þá starfsemi sem þegar á sér stað innan lögreglunnar í sambandi við greiningu og rannsókn á skipulagðri glæpastarfsemi. Þarna var um að ræða ákveðið átaksverkefni sem ég held að sé mjög mikilvægt að framhald verði á. Ég vil nota þetta tækifæri til að koma því sjónarmiði til ráðherra að hann hafi forgöngu um það og að því marki er það kemur til kasta þingsins, hvort sem það yrði með fjáraukalögum eða einhverjum öðrum hætti, tel ég að við alþingismenn eigum að styðja hæstv. innanríkisráðherra í því að tryggja það fjármagn sem þarf til þeirra aðgerða.

Hér hefur verið nefnt í umræðunni og allt með réttu að við höfum í ljósi allra aðstæðna ákveðið tækifæri til að spyrna kröftuglega við í átökum okkar við skipulagða glæpastarfsemi. Nefnd hefur verið lega landsins og það hve fáar leiðir eru inn og út úr landinu sem auðvitað er kostur þegar kemur að málum af þessu tagi. Fámennið á líka að hjálpa okkur og ég held að reynsla bara síðustu vikna eigi að sýna okkur að lögregluyfirvöld geta náð góðum árangri í baráttu af þessu tagi. Þó að ekki séu öll kurl komin til grafar í þeim efnum í sambandi við niðurstöðu dómstóla og annað er þó um það að ræða að aðgerðir lögreglu virðast ætla að skila góðum árangri, hafa alla vega gert það um sinn. Ég held að það sé afar mikilvægt fyrir okkur á þingi og í ríkisstjórn að gera okkur grein fyrir því að við höfum ákveðið tækifæri til að stíga fast til jarðar og spyrna við fórum gagnvart þeirri þróun sem á sér stað í þessum efnum og mikilvægt sé að við nýtum það færi til að taka fast á í þeim efnum. Þetta vildi ég segja, hæstv. forseti, um skipulögðu glæpastarfsemina og mikilvægi þess að við beitum aðferðum bæði á vettvangi löggjafarvalds og eins annars staðar til að vinna gegn þeirri óheillaþróun sem við höfum séð.

Ég nefndi áðan í andsvari við hæstv. ráðherra, eins og fleiri hv. þingmenn hafa gert, að þegar við ræðum um forvirkar rannsóknarheimildir er vissulega komið inn á svið sem snertir vernd einkalífs og persónuverndarsjónarmiða almennt. Að sjálfsögðu getum við ekki vaðið áfram hugsunarlaust og samþykkt hvað sem er. Ég er þó þeirrar skoðunar að við getum gengið lengra, haft þau ákvæði sem um er að ræða víðtækari en er að finna í frumvarpi hæstv. ráðherra. En eins og ég gerði í andsvari áðan við hæstv. ráðherra legg ég líka áherslu á það að við hugum að eftirlitsþættinum.

Hér hefur verið vísað til þingeftirlits og það er ákveðinn vísir að því í frumvarpi hæstv. ráðherra þar sem ríkissaksóknari á að skila skýrslu til allsherjarnefndar þingsins um framkvæmd eftirlitsins. Nefnt hefur verið í umræðunni að ganga megi lengra með því að fela sérstakri þingnefnd beint eftirlit með framkvæmd þessara mála. Fyrir því eru ákveðin fordæmi í nágrannalöndum og ég held að inn í þessa umræðu eigum við að taka slík atriði. Hins vegar má segja að það er auðvitað á vissan hátt viðkvæmt vegna þess að þar með værum við að fela þingnefnd töluvert öðruvísi hlutverk en þingnefndir hafa að jafnaði, það er ekki sama hvernig að því er staðið eða hvernig það er gert. Þetta vildi ég nefna, hæstv. forseti.

Að lokum er eitt atriði sem ég vildi nefna líka í þessu sambandi, það tengist því sjónarmiði sem ég hef látið í ljósi um að víkka beri út það ákvæði sem er að finna í frumvarpi hæstv. ráðherra. Það snýr að hryðjuverkaógninni sem hefur sem betur fer ekki verið mikil hér á landi. Greiningar ríkislögreglustjóra sem við höfum í höndunum hafa ekki gefið okkur tilefni til þess að hafa miklar áhyggjur af þeim þætti. Ég held hins vegar að ekki sé skynsamlegt fyrir okkur annað en að huga að þeim þætti samhliða, þ.e. að forvirkum rannsóknarheimildum verði ekki eingöngu beitt gegn því sem við köllum skipulagða glæpastarfsemi heldur sé líka heimilt að beita þeim gagnvart hryðjuverkaógninni.

Það er staðreynd að í öðrum norrænum ríkjum hefur hryðjuverkaógn af ýmsu tagi orðið sýnilegri og það getur gerst hér líka. Það getur gerst og ég álít að við sem löggjafi þurfum að gera ráð fyrir þeim möguleika þó að við séum ekki endilega (Forseti hringir.) að horfa á sambærilega þróun í þeim efnum og á ýmsum öðrum sviðum.