140. löggjafarþing — 76. fundur,  21. mars 2012.

meðferð sakamála.

622. mál
[18:18]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er svo sem ekki mikið um það að segja. Það er eðlilegt og nokkuð sem við gerum oft, bæði í löggjöf og öðru regluverki, að horfa til frændþjóða okkar. Ég tel að í þessu efni rétt eins og í öðru eigum við að gera það með afar gagnrýnu hugarfari og sérstaklega þegar um er að ræða auknar heimildir sem geta orkað tvímælis, þá þurfum við að rýna afar vel hvernig þær heimildir hafa nýst viðkomandi samfélagi og hvort við teljum á grundvelli raka og yfirvegunar að slíkar heimildir muni færa okkur nær þeim markmiðum sem við viljum ná.

Mínar vangaveltur snerust fyrst og fremst um það að ég sé ekki að Norðurlöndin hafi náð utan um þessa starfsemi þrátt fyrir umræddar heimildir, þess vegna tel ég þau rök veik þegar horft er til lagaumhverfisins á Íslandi í þessu efni.