140. löggjafarþing — 76. fundur,  21. mars 2012.

meðferð sakamála.

622. mál
[18:20]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að deila við hæstv. umhverfisráðherra um hluti sem ég held að við séum í aðalatriðum sammála um, en ég verð þó að segja að ef við ætluðum að hafna forvirkum rannsóknarheimildum á þeim forsendum að þær hafi ekki virkað annars staðar á Norðurlöndum hefðum við líka hafnað hinni svokölluðu sænsku leið í vændismálum vegna þess að það að gera kaup á vændi refsiverð hefur ekki útrýmt vændi þar eða annars staðar. Það er auðvitað samspil margra þátta sem ræður úrslitum í þeim efnum hvaða árangri við náum í sambandi við baráttu við skipulagða glæpastarfsemi eða aðra brotastarfsemi.

Það er hárrétt sem hæstv. ráðherra segir, að við þurfum að fá upplýsingar um það og kynna okkur með hvaða hætti þessar heimildir hafa raunverulega nýst annars staðar á Norðurlöndum. En það að skipulögð glæpastarfsemi eigi sér stað þar er ekki sönnun fyrir því að forvirkar rannsóknarheimildir yfirvalda í Danmörku og Noregi eða eftir atvikum Svíþjóð séu marklausar.